Ó, Lou!

Veit ekki. Fór á Lou Reed í gær. Einn vinur minn hafði svikið mig á því að fara útaf einhverju stjórnmálabrölti, en mér tókst að redda boðsmiðum fyrir tvo vini mína og fór með þeim.

Æi, ég veit ekki. Er eiginlega nokkuð sammála þessu hjá [Dr. Gunna](http://www.this.is/drgunni/gerast.html). Ég þekkti ekki fyrstu 10 lögin, sem voru öll einsog þau væru spiluð af Phish, eða einhverri djammsveit. Voða gaman eflaust með fimm mínútna gítarsólóum, en mér leiddist og ég bað til Guðs um að hann myndi fara að spila eitthvað af Velvet Underground lögunum.

En þau komu bara aldrei. Jú, hann tók Venus in Furs og svo gjörsamlega kraftlausa útgáfu af Sweet Jane. Hef sjaldan verið eins fúll yfir tónleikaútgáfu af lagi einsog Sweet Jane. Það var einsog einhver hefði miðað skammbyssu á hausinn á honum og neytt hann til að taka lagið.

Ok, gaurinn var allt í öllu í einni bestu rokkhljómsveit allra tíma, en samt tekur hann bara tvö lög með þeirri hljómsveit á sínum fyrstu tónleikum í nýju landi. Það fannst mér verulega slappt. Ég get nefnt svona 15 Underground lög, sem ég hefði viljað heyra.

Allavegana, uppklappið var það skásta, hann tók þá Satellite of Love, Perfect Day og Walk on the Wild Side. Samt alls ekki nógu gott í heildina.


En ok, á víst flug seinna í dag. Ætla að reyna að uppfæra nokkrum sinnum frá Bandaríkjunum. Ok, bæ.

27

Og án þess að neitt merkilegt hafi breyst í heiminum, þá varð ég 27 ára á þriðjudaginn.

Fokking magnað skal ég segja ykkur. Og þó, ég er bara sáttur.

Átti rólegan afmælisdag. Eða rólegan og ekki rólegan. Vinnan er búin að vera hreinasta sturlun síðustu daga. Þar, sem ég er að fara út og vegna þess að ég er fullkomlega ómissandi (ehm!) þá hef ég verið til klukkan 9-10 öll kvöld að vinna. Síminn minn sló persónulegt met í dag, svo mörg voru símtölin og það lítur út fyrir að ég verði í einhverju algjöru allsherjar stresskasti á morgun. Trúi því varla að ég sé að fara út eftir tvo daga.

Allavegana, það var allt brjálað í vinnunni á afmælisdaginn og var ég kominn heim um 8 leytið. Fór þá strax niðrí Iðnó, þar sem ég [horfði á Jón Baldvin](http://www.jenssigurdsson.com/entry/2004/08/18/23.28.22/index.html), mesta stjórnmálasnilling á Íslandi, halda ræðu. Hafði ætlað að hitta [PR](http://www.jenssigurdsson.com) & frú, en það var fullt útúr dyrum, þannig að ég var frammí anddyri allan tímann. Hitti þau hjónin þó eftirá og við fórum á Thorvaldsen (af öllum stöðum) og fengum okkur bjór í tilefni dagsins.


Í gær fór ég með frænda mínum á [Ísland-Ítalíu](http://www.fotbolti.net/fullStory.php?id=17751). Það var frábært og hef ég ekki skemmt mér jafn vel á landsleik síðan ég og Friðrik fórum á Ísland-Frakkland fyrir nokkrum árum. Allt stappað á vellinum (ég var í stúku, Guði (og KBBanka) sé lof), frábær stemning (ég var m.a.s. hás í dag) og frábær sigur á Nesta, Gattuso og hinum smjördrengjunum í ítalska liðinu. Ljómandi, alveg hreint. Á morgun, Lou Reed.


Annars, þá fer maður ”á tímamótum sem þessum” pínu að hugsa um hvað maður hefur gert á síðustu mánuðum. Lygilega lítið ef eitthvað er. Einhvern veginn rennur þetta allt saman í einhvert vinnu-brjálæði, djamm og endalaust stelpu-vesen.

Jú, ég fór til Rússlands eftir síðasta afmæli og það verður nú að teljast hápunkturinn á þessu síðasta ári. Þá [skrifaði]( https://www.eoe.is/gamalt/2003/08/18/18.51.56/) ég einmitt: ”Þetta er líka gott tækifæri til að jafna mig eftir allt vinnuálagið og vesen í einkalífinu undanfarnar vikur og mánuði.”
Einhvern veginn finnst mér ég vera á nákvæmlega sama punkti og ég var áður en ég fór til Rússlands. Þessi setning passar alveg jafnvel við mig í dag. Jú, ég er búinn að vesenast eitthvað í íbúðinni minni, svo hún lítur betur út, og ég er kominn mun betur inní vinnuna, en samt þá finnst mér einsog svo lítið hafi gerst. Það er ennþá alltaf eitthvað bölvað vesen á manni utan vinnu. Og kræst maður, þarf að fara að finna stelpu, sem er ekki á föstu eða nýhætt í sambandi. Það hlýtur að fara að koma. Ég hlýt að vera búinn að taka út þann skammt. 🙂


Oft á tíðum fæ ég endurnýjaða trú á mannkynið. Ein af slíkum stundum átti sér stað þegar ég var á leiðinni heim úr vinnunni um níu-leytið í kvöld. Á einhverju stöðvarápi endaði ég á FM957. Þar var verið að spila Dry Your Eyes með [The Streets](http://www.the-streets.co.uk/)!!! (Já, þrjú upphrópunarmerki, þetta er svo merkilegt). Ekki nóg með það, heldur var þetta lag á FM-listanum!!! (Takið eftir, aftur þrjú upphrópunarmerki) Já, kraftaverkin gerast. Bæ ðe veij, ef þið hafið ekki hlustað á [The Streets](http://www.the-streets.co.uk/), hendið þá frá ykkur tölvunni og hlaupið útí næstu búð. Þessi gaur er snillingur.


Já, og svo fannst mér alveg ljómandi egósentrískt að setja mynd af sjálfum mér á afmælisdaginn við þessa afmælisfærslu. Svona til að vinir og vandamenn gleymi ekki því hvernig ég lít út á meðan ég er í Bandaríkjunum. Þetta er nú einu sinni blogg og fátt er meira egósentrískara en að halda úti bloggsíðu um sjálfan sig. Og hananú!


En núna er það USA. Var að tala við Genna vin minn og svo var ég að klára plönin með Dan, sem ætlar með mér til Las Vegas. Verð að segja að ég er að deyja úr spenningi. Þarf bara að klára tvo stress daga í viðbót og svo er þetta komið. Jibbí!

Sund á Ólympíuleikunum

Þrátt fyrir að pabbi minn hafi verið margverðlaunaður sundmaður, þá hef ég alla ævi verið blessunarlega laus við áhuga á sundi (auk þess, sem ég er alveg skuggalega lélegur sundmaður).

[Þetta blogg hjá Sverri Jakobs um sundkeppnina á Ólympíuleikunum](http://kaninka.net/sverrirj/010618.html) minnti mig á að setja fram byltingarkennda breytingatillögu mína á sundíþróttinni, sem ég hef verið að velta fyrir mér síðustu daga.

Mér hefur nefnilega alltaf fundist þetta verðlaunaflóð í sundi vera fáránlegt. Það er með ólíkindum að hægt sé að vinna kapp yfir sundlaug með mismunandi hætti. Þetta flugsunds, baksunds, skriðsunds dæmi er fáránlegt. Þetta er álíka og að keppt væri í 100 metra hlaupi, þar sem allir ættu að hlaupa venjulega, svo taka háar hnélyftur og því næst valhoppa á leiðarenda.

Það sjá allir að þetta er tóm steypa og aðeins gert til að verðlaunasafn sundfólks sé veglegra en annars íþróttafólks.

Því legg ég til eftirfarandi breytingartillögu:

Aðeins verður keppt í einni sundgrein á Ólympíuleikunum. Sú keppni er 100 metra sund með frjálsri aðferð. Ef einhver er fljótastur í skriðsundi, þá syndir hann skriðsund og ef einhver er fjótari í flugsundi, þá syndir hann þannig. Þarna yrði á einfaldan hátt hægt að sjá hver besti sundmaðurinn er, og hægt væri að gera keppnina mun meira spennandi.

Það nennir nefnilega enginn maður að horfa á 10 greinar í sundi. Ef þetta væri bara ein grein, þá myndi ég meira að segja horfa og þá gæti ég sagt ykkur hver væri bestur í sundi.

Bandaríkjaferð

Jæja, þá eru ekki nema 5 dagar þangað til að ég fer í frí. Ég ákvað að taka sumarfrí svona seint til að reyna aðeins að lengja sumarið, þrátt fyrir að ég geri mér ekki alveg grein fyrir því í hvað þetta sumar hefur farið.

Allavegana, ég er að fara til Bandaríkjanna á laugardaginn. Ætla að hitta fullt af gömlum vinum og verða í Bandaríkjunum í 4 vikur.

Planið er lauslega þannig að ég ætla að fljúga til Washington D.C., þar sem ég ætla að gista hjá Genna og Söndru, vinum mínum sem búa þar. Frá D.C. ætla ég að fara til Chicago, þar sem ég ætla að eyða lengsta tímanum, enda á ég flesta vini í þeirri borg. Ætla að gista hjá Dan vini mínum, sem býr rétt hjá [Wrigley Field](http://chicago.cubs.mlb.com/NASApp/mlb/chc/ballpark/chc_ballpark_history.jsp). Ég ætla að eyða um 10 dögum í Chicago, hitta vini, fara á baseball leiki og á djammið.

Frá Chicago fer ég til Las Vegas með Dan vini mínum (og kannski einni vinkonu okkar líka). Þar ætlum við að eyða helginni saman. Þau fara svo á sunnudegi, en ég ætla að eyða tveim dögum í að skoða Grand Canyon.

Næsta stopp er ekki alveg ákveðið, en ég ætla að hitta Grace vinkonu mína, sem býr í Los Angeles. Það gæti þó verið að við myndum bara hittast í San Fransisco og ég myndi eyða tímanum þar í stað L.A. Einhvern veginn heillar San Fransisco mig meira en Los Angeles.

En allavegana, þaðan ætla ég til New York, þar sem ég ætla að gista hjá Ryan, herbergisfélaga mínum frá því í [háskóla](http://www.northwestern.edu). Hann býr þar ásamt Kate kærustu sinni. Frá New York er það svo planið að taka lest niður til DC og þaðan heim til Íslands.

Þetta hljómar frekar mikið, en ég er að vona að þetta verði ekki dýrt. Fæ að öllum líkindum ókeypis gistingu alls staðar nema í Las Vegas (þar sem gistingin er fáránlega ódýr). Svo eru flugin innan Bandaríkjanna líka fáránlega ódýr.

En allavegana, get ekki beðið eftir því að komast burt. Sleppa við umtal, flækjur, vesen, stress og allt bullið hérna heima. Ég þarf frí.

Chavez áfram! Ó kræst!

0602chavez.jpgJæja, nú geta þeir á [Múrnum](http://www.murinn.is/eldra_b.asp?nr=1339&gerd=Frettir&arg=5) fagnað, því svo virðist sem að Hugo Chavez hafi [unnið þjóðaratkvæðagreiðsluna](http://news.bbc.co.uk/2/hi/americas/3569012.stm) um það hvort hann ætti að fá að sitja áfram.

Chavez er vondur forseti, sama þótt að Múrsverjar horfi með aðdáunaraugum til þess að sum verkefni hans þykji “minna mjög á fyrstu ár byltingarinnar á Kúbu”.

Venezuela er ríkt af olíulindum, en ótrúlega spilltum og vitlausum stjórnmálamönnum hefur tekist að klúðra öllum olíugróðanum og landið er eitt það fátækasta í Ameríku. Chavez lofaði öllu fögru þegar hann var kosinn fyrir fjórum árum, en hann hefur ekki staðið við margt af því.

Meðallaun eru núna á sama plani og þau voru í kringum [1950](http://www.economist.com/agenda/displayStory.cfm?story_id=3093539) og atvinnuleysi hefur aukist uppí 16%. Þetta hefur gerst þrátt fyrir að olíuverð sé með allra hæsta móti. Guð hjálpi Venezuela-búum ef að Chavez hefði verið við völd þegar olíverð var lágt.

Hann hefur einnig gert sem allra mest til að auka völd sín og hefur m.a. gert hæsta réttinn nánast sinn eigin, bæði með því að fjölga dómurum og með því að koma þar fyrir vinum og vandamönnum.

Þeir á Múrnum ættu að finna sér skárri þjóðarleiðtoga til að [verja](http://www.murinn.is/eldra_b.asp?nr=1339&gerd=Frettir&arg=5), heldur en Hugo Chavez.

**Uppfært**: Sverir J. [kommentar á þessa færslu á sinni síðu](http://kaninka.net/sverrirj/010609.html) og ég svara honum [hér](https://www.eoe.is/gamalt/2004/08/16/13.40.37/#3280).

Ég er viðbjóðslega þunnur.


Þetta er allt þessu bévítans freyðivíni, sem ég drakk í gær, að kenna. Þvílíkt hörmungarástand, sem er búið að vera á mér í allan dag.

En nenni ekki þessu væli… Var í brúðkaupi hjá Borgþóri og Björk, vinum mínum, í gærkvöldi. Þar var nóg af léttvíni og ég varð frekar fullur. Hélt ræðu fyrir hönd vinanna. Vegna þess að við sýndum líka myndband þurftum ég að bíða með að halda ræðuna þangað til að sólin settist, til að hægt væri að horfa á myndbandið. Það varð til þess að ég var kominn veeeel í glas þegar ég hélt ræðuna. Ræðan var blaðlaus, hafði hripað nokkra punkta á blað, sem ég kíkti á. Hún var víst of löng og ég endurtók víst einhverja hluti nokkuð oft. En ég meina hei.

En brúðkaupið var frábært, þrátt fyrir að minnið sé að bjaga mig all svakalega í dag. Fór og keypti ís í þeirri barnalegu trú að ís myndi laga allt. Það hefur hins vegar ekki gerst. Öðru nær.


Mér finnst þessi [vefsíða fyndin](http://www.conservativematch.com/). Þetta er match-making síða fyrir íhaldsmenn. Sá auglýsingu fyrir þetta á Metafilter.

Ég setti reyndar einu sinni fram þá kenningu að hægri sinnaðar stelpur væri sætari en vinstri sinnaðar. Það hefur svo sem ekki verið vísindalega sannað, en held að það sé nokkuð til í þessu. Efast þó um að það sé sniðugt að leita sér að maka byggt á stjórnmálaskoðunum einsog þetta fólk virðist gera.


Úff, tveir dagar í afmælið mitt og vika þangað til að ég fer í frí til USA. Get ekki beðið.

Tímamót

Fyrir ykkur, sem fylgjast ekki með fótbolta, þá eru stórtíðindi að gerast.

Málið er að uppáhaldsknattspyrnumaðurinn minn, Michael Owen er að fara til Real Madrid. Þetta er magnað. Owen hefur verið í gríðarlegu uppáhaldi hjá mér síðustu 3-4 ár. Það er því visst sjokk (sem ég er ekki alveg búinn að átta mig á) að hann skuli vera að fara.

Ég á bara erfitt með að sætta mig við að Michael Owen muni spila með Real Madrid, en ekki Liverpool á næsta tímabili.

Allavegana, auðvitað tjáði ég mig um þetta á Liverpool blogginu:

[Owen er farinn!](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2004/08/13/00.03.18/)

Fannst passa að vísa á þetta, þar sem þetta hefur vissulega áhrif á mitt líf. Það er ekki á hverjum degi, sem uppáhaldsíþróttamaðurinn manns skiptir um lið. Síðasta viðlíka áfall var þegar Ruud Gullit var seldur. En samt er áfallið ekki eins svakalegt og ég bjóst við að það yrði.

O'Reilly vs. Paul Krugman

Bill O’Reilly, stjórnandi The O’Reilly Factor (sem, eftir [aðdáun hans á Ann Coulter](http://www.bjorn.is/leit?SearchFor=coulter) að dæma, væri pottþétt uppáhaldsþáttur Björns Bjarna), mætti hagfræðisnillingnum Paul Krugman á CNBC um helgina.

Krugman, sem er núna pistlahöfundur á NY Times, hefur gagnrýnt Bush stjórnina harkalega en O’Reilly hefur varið Bush og kallar alla þá, sem ekki dýrka hann og dá, föðurlandssvikara.

Allavegana, O’Reilly hefur hrósað sjálfum sér afskaplega mikið undanfarna daga fyrir að hafa staðið sig svo vel í þessu viðtali. Jim Gilliam, höfundur [Outfoxed](http://www.amazon.com/exec/obidos/tg/detail/-/B0002HDXTQ/qid=1092264839/sr=8-1/ref=pd_ka_1/103-1224149-3119807?v=glance&s=dvd&n=507846) er ekki alveg sammála og tók saman smá myndbút úr þessu viðtali og bætti inn tengdum staðreyndum.

Myndbandið er skemmtilegt fyrir þá, sem hafa áhuga á bandarískri pólitík:

[**Krugman vs. O’Reilly hjá Tim Russert**](http://www.jimgilliam.com/video/krugman_vs_oreilly_200.mov) – 12 mb Quicktime skjal.

Þessi færsla er tileinkuð [Óla](http://www.obalogy.com/) snillingi, sem virðist alveg vera hættur að blogga

via [MeFi](http://www.metafilter.com/mefi/34909)

Áætlanagerð á svölunum

Ef ég myndi reyna alveg ofboðslega mikið, þá gæti ég alveg vanist þessu veðri, sem hefur verið síðustu tvo daga á Íslandi.

Ég gafst uppí vinnunni um tvö leytið, enda var hitinn alltof mikill.

Er núna kominn heim og sit útá svölum með kokteil og ljóshærða gellu mér við hlið fartölvu og stunda áætlanagerð af miklu kappi. Þarf að skila af mér gríðarlega hressandi áætlun fyrir morgundaginn. Jedúddamía hvað það er gaman að leika sér í Excel í nokkra klukkutíma. Skrítið að ég hafi aldrei viljað vinna í banka.