Ok Computer og In Rainbows saman

Ok Computer með Radiohead er á topp 5 yfir uppáhaldsplöturnar mínar. Ég gjörsamlega dýrka þá plötu. Via Kottke þá rakst ég á þessa pælingu, það er að mixa saman lögunum á Ok Computer og In Rainbows. Taka lag 1 á Ok Computer, svo 1 á In Rainbows, svo 2 á Ok Computer og svo framvegis.

Þetta virkar ótrúlega vel. Í raun hljómar þetta einsog ein heilstæð plata. Gott ef að ég fílaði ekki In Rainbows lögin enn betur þegar þau komu svona strax á eftir Ok Computer.

Tvær mjög góðar heimildamyndir um íþróttir

Á síðustu vikum hef ég séð tvær mjög góðar heimildamyndir um íþróttir, sem óhætt er að mæla með.

Sú fyrri er **The Two Escobars**, sem að ég sá á kvikmyndahátíðinni í Stokkhólmi fyrir einhverjum vikum síðan. Þetta er heimildamynd framleidd af ESPN og fjallar hún um tvo Kólumbíumenn með sama eftirnafn, Pablo og Andres Escobar.

Andres Escobar var einn besti fótboltamaður í Kólumbíu og lék með hinum frábæra kólumbíska landsliði, sem margir bjuggust við að myndu gera stóra hluti á HM í Bandaríkjunum 1994. Ég man vel eftir þessu liði enda höfðu þeir leikið frábæran fótbolta í aðdraganda mótsins. Þetta var auk þess lið fulltaf furðulegum karakterum einsog Carlos Valderama (með gula afró hárið), markmanninn Rene Higuita og Faustino Asprilla. Andres Escobar var fyrirliði liðsins og einn vinsælasti leikmaður þess.

Hinn Escobar-inn var svo Pablo Escobar, sem var þekktasti og illræmdasti eiturlyfjabarón Kólumbíu. Kvikmyndin segir sögu þessara tveggja manna og hvernig líf þeirra tengdust – en þeir voru að lokum báðir drepnir með stuttu millibili. Fyrst Pablo Escobar þegar að yfirvöld byrjuðu að þjarma að veldi hans – og svo Andres Escobar, sem var skotinn í Bogota eftir að hann hafði skorað sjálfsmark í leik á HM, sem að gerði að engu vonir Kólumbíumanna um að fara langt á HM. Þetta er frábær mynd.

* * *

Seinni myndin var svo sýnd í sænska sjónvarpinu fyrir nokkrum vikum. SVT, sænska ríkissjónvarpið, sýnir í hverri viku heimilidarmyndir frá ýmsum löndum. Thrilla in Manila, sem var framleidd af HBO, fjallar um bardaga milli Joe Frazier og Muhammed Ali, sem fór fram í Manila á Filipseyjum árið 1975 – og er af mörgum talinn besti boxbardagi sögunnar. Þá voru Frazier og Ali nokkurn veginn jafn góðir boxarar, en í dag er Ali margfalt þekktara nafn og Joe Frazier býr einn í litlu herbergi við hliðiná gamla box-salnum sínum í fátækrahverfi í Fíladelfíu.

Myndin sýnir aðdraganda bardagans frá hlið Joe Frazier og fjallar um það hvernig honum fannst hann vera svikinn og niðurlægður af Ali og hvernig að sá biturleiki er enn til staðar núna 25 árum seinna. Einhverjum finnst myndin sennilega taka fullmikið upp hanskann fyrir Frazier, en þar sem að við sjáum nánast aldrei neitt frá hans hlið í dag, þá er það bara ágætt að mínu mati. Áður en ég sá myndina, þá mundi ég ekki hvernig bardaginn í Manila fór – og það er klárlega kostur, því hún nær að byggja upp spennu fyrir sjálfum bardaganum.

Margrét horfði á báðar þessar myndir með mér og var hrifin af þeim báðum, þannig að það er alger óþarfi að vera sérstakur áhugamaður um fótbolta eða box til að hafa gaman af þessum tveimur myndum.

Heimsóknir á kop.is og fleiri síður

Í framhaldi af umræðunni í síðustu færslu um Apple markaðshlutdeild, þá ákvað ég að kíkja á hvaðan heimsóknir á þær síður, sem ég stjórna, koma.

Ég hef ágætis tölur á bakvið þetta þar sem ég rek eina gríðarlega vinsæla bloggsíðu (kop.is), eina smá vinsæla bloggsíðu (eoe.is) og svo rek ég fyrirtækjasíður í tveimur löndum – Serrano í Svíþjóð og á Íslandi.

Allavegana, hérna eru helstu niðurstöðurnar. Fyrst varðandi stýrikerfi, sem að lesendur nota.

KOP.is
Windows 78,9%
Mac 17%
iOS (iPad, iPhone, iPod): 1,6%
Linux 1%

Lesendur KOP.is virðast vera nokkurn veginn einsog ágætis þverskurður af Íslandi þegar að kemur að notkun á stýrikerfum – Windows með rétt undir 80% og Mac með 17%. Þegar ég skoða Serrano.is heimsóknirnar, þá eru niðurstöðurnar í raun nákvæmlega eins.

Hins vegar ef ég skoða mína prívat bloggsíðu þá er Apple hlutinn talsvert stærri

EOE.is
Windows 67%
Mac 28%
Linux 1,6%
iOS 1,4%

Svo er líka athyglisvert að skoða heimsóknir á sænsku Serrano síðuna. Einsog ég skrifaði, þá eru heimsóknir á íslensku Serrano síðuna nokkurn veginn einsog á Kop.is – það er 78% Windows. Á sænsku síðunni lítur þetta út svona:

Serrano.nu
Windows 62,4%
Mac 28,5%
iOS 6,3%

Ég hef enga sérstaka ástæðu til að ímynda mér að viðskiptavinir Serrano í Svíþjóð séu frábrugðnir þeim íslensku. Það er þó greinilegt að þeir nota netið talsvert meira í símanum, sem kemur mér ekki á óvart. Stokkhólmsbúar eru alltaf í strætóum og lestum, þar sem fólk notar símann miki,ð á meðan að Íslendingar keyra bíla og geta ekki verið á netinu. Eins verður maður meira var við auglýsingar á Apple vörum hérna og iPhone er klárlega vinsælasti síminn, sem eykur sennilega vinsældir Apple tölva.

Og að lokum tók ég saman hvaða farsíma notendur KOP.is eru að skoða síðuna úr. Þar voru niðurstöðurnar svona:

KOP.is
iPhone 42,4%
Symbian 19,5%
iPad 15,2%
Android 11,4%
iPod 6,8%
Blackberry 2,5%
Aðrir

Ef ég tæki iOS þarna saman í eitt (það er iPhone, iPad og iPod) þá væru það samanlagt um 64,4% af heimsóknum sem kæmu úr Apple tækjum. Það er hreinlega fáránlega magnað því að iPhone er ekki einu sinni seldur á skynsamlegu verði á Íslandi. Menn þurfa að borga tugir þúsunda fyrir símann. Og iPad er ekki heldur byrjaður í almennri sölu.

RÚV á Youtube!

Þar sem ég hef búið erlendis síðustu 2 árin þá hef ég talsvert horft á myndbönd á íslenskum vefmiðlum. Þetta eru engin ósköp, en svona 3-4 sinnum í mánuði langar mig að sjá eitthvað Kastljós viðtal eða aðra myndbúta – oftast eftir að 10 manns á Facebook hafa byrjað að tala um viðkomandi myndband.

Ég er líka Apple notandi og hef verið það síðustu áratugi. Það er með hreinum ólíkindum hversu aftarlega íslenskir miðlar eru í því að koma myndböndum til okkar Apple notenda. Ég hefði kannski skilið þetta fyrir einhverjum árum, en í dag eru **allir** með Apple tölvur. Í kringum mig myndi ég segja að svona 70% af því fólki, sem ég þekki og vinn með noti Apple tölvur. Eflaust hafa einhverjir smitast af mér, en það er samt fráleitt að halda því að Apple notendur séu einhver jaðarhópur auk þess sem að Apple selur vinsælasta farsímann í dag.

Samt er RÚV ennþá að notast við einhverja útgáfu af Windows Media Player, sem virkar ómögulega á Apple tölvum – og alls ekki á iPhone eða iPad.

Vísir uppfærði sitt kerfi nýlega og þeir enduðu með eitthvað Flash dót, sem er svo hægvirkt að ég get ómögulega horft á heilt myndband án þess að það hökti 10 sinnum.

Má ég koma með tillögu til RÚV um hvernig þeir geti lagað þetta?

Hættiði með eigin kerfi og vinnið þetta bara með Youtube. Setjið Silfur Egils og Kastljós þætti þar strax að lokinni útsendingu. Youtube myndbönd er hægt að hafa í frábærum gæðum og það sem er mikilvægast – þau virka alls staðar. Í öllum tölvum, öllum vöfrum og á öllum farsímum. Það er jú árið 2010 og stór hluti netnotkunnar fólks er á farsímum. RÚV gæti verið með sér stöð innan Youtube og það myndi ekki kosta það neitt að vera með sín myndbönd þar (ólíkt því að hýsa þau á eigin server með einhverju Windows Media Player dóti).

Þannig að þessi lausn myndi spara RÚV umtalsverða peninga og gera myndböndin aðgengileg öllum. Af hverju ekki?

Frambjóðendakönnun

Ég tók þessa frambjóðendakönnun á DV.is og þetta voru þeir frambjóðendur, sem pössuðu best við mig:

Það sem vantar auðvitað inní þessa könnun er að velja hvaða vægi menn leggja við hverja spurningu.

Sú sem lenti efst hjá mér er til dæmis hlutlaus er varðar kirkjumálin, sem ég vil ekki hafa í stjórnarskrá. Á þessum lista voru fjölmargar spurningar, sem skipta mig litlu máli. Allavegana, menn geta prófað þessa könnun hér. Ætli mitt atkvæði yrði ekki bland af því fólki, sem ég þekki til og þeim sem skora vel í svona könnunum byggðum á málefnum.

New York Bloggið

New York Bloggið. – Sigurjón hefur sett upp síðu þar sem hann fjallar um veitingastaði og fleiri hluti í New York, þar sem hann býr.  Mjög skemmtileg hugmynd.  Ég hef lengi ætlað mér að gera eitthvað svipað um Stokkhólm, en hef ekki enn komið mér í það.  Aðallega til að halda utanum þá veitingastaði, sem ég hef borðað á.

Apple Support Acknowledges iOS 4.1 Daylight Saving Time Bug – Mac Rumors

Apple Support Acknowledges iOS 4.1 Daylight Saving Time Bug – Mac Rumors. – Síðustu daga hef ég þrisvar sinnum sofið yfir mig. Ég hélt að ég væri að verða geðveikur, þar sem hversu mikið ég pældi í vekjara-stillingunum á iPhone-inum mínum þá endaði ég alltaf á því að sofa yfir mig. Nú les ég það á netinu að það er GALLI í símanum, en ekki í hausnum á mér, sem að veldur því að vekjarinn hringir klukkutíma á eftir áætlun

Serrano í Svíþjóð vinnur verðlaun

Á mánudagskvöldið unnum við á Serrano í Svíþjóð virt sænsk verðlaun, sem veitt eru til veitingastaða ár hvert.

Anders rekstrarstjóri, ég og Alex yfirkokkur með verðlaunin

Restauranggalan er verðlaunaafhending, sem skipulögð er ár hvert af blaði, sem að fjallar um veitingastaðabransann, og er styrkt af fjölmörgum birgjum í greininni. Afhendingin var á mánudagskvöld í glæsilegum sal á frægasta hóteli Stokkhólms – Grand Hotel.

Á verðlaunaafhendingunni voru nokkrir flokkar, svo sem bar ársins (sem að Orangeriet vann) og veitingastaður ársins (sem að Frantzén / Lindeberg vann) auk einstaklingsverðlauna (einsog sommelier ársins). Serrano var tilnefnt í flokknum Årets Smaksättare. Það er kannski erfitt að þýða þann titil nákvæmlega. Orðið má skilja bæði sem “bragðefni” og einnig nokkurs konar “trend-setter”. Dómefndin útskýrði leit sína þannig að þeir leituðu eftir stöðum, sem að kæmu með nýja hugsun inná sænska markaðinn og væru óhræddir við að standa á bakvið sínar hugmyndir (versus það að reyna að gera allt bragðminna og meira sænskt). Í fyrra vann staðurinn Marie Laveau á Södermalm (sem ég held uppá) þessi sömu verðlaun.

Við vorum tilnefnd ásamt einum öðrum stað og við unnum verðlaunin. Þetta var auðvitað frábært því að allir hinir staðirnir, sem voru tilnefndir og unnu verðlaun voru fínir og dýrir veitingastaðir, en við vorum eini skyndibitastaðurinn sem vann verðlaun. Það sýnir kannski að okkur hefur tekist það markmið okkar að setja á markað hérna mat, sem er í sama gæðaflokki og hefðbundnir veitingastaðir selja – en er afgreiddur á fljótan hátt og er ódýr.

Í dómnefnd voru 30 sérfræðingar og í niðurstöðum sínum þá gáfu þau þessa umsögn um Serrano:

>Mexíkóskur skyndibiti fór í ferðalag til Kaliforníu, keypti sér ný föt, fékk nýtt nafn og endaði í Stokkhólmi. Nú hefur hin heita og ódýra skyndibitakeðja flutt sig inní stórborgina og býður þar uppá kryddsterkan og litríkan skyndibita. Orðið ferskt er ekki nægilega sterkt til að lýsa staðnum.

Þetta var ótrúlega skemmtilegt kvöld og það er frábært að fá svona viðurkenningu á því að það er fólk þarna úti sem kann að meta það sem við erum að reyna að gera hérna í Stokkhólmi. Það gekk ekki allt einsog smurt þegar að við opnuðum fyrir rúmu ári hérna í Svíþjóð, en núna finnst okkur einsog hlutirnir séu að gerast og að framtíðin sé björt fyrir okkur hérna.