Fyrstu dagarnir með iPad

iPad-inn minn
Ég er búinn að eiga iPad í um þrjár vikur.  Vinkona mín keypti einn slíkan fyrir mig í Bandaríkjunum og kom með hann hingað til Stokkhólms.  Það er eflaust hægt að finna milljón greinar um iPad, en ég ætla samt að bæta aðeins við þá flóru og taka saman nokkra punkta um mínar tilfinningar gagnvart þessu tæki.

Einsog öllum, sem lesa þessa síðu reglulega, ætti að vera ljóst er ég forfallinn tækjasjúklingur og hef notað Apple vörur í áratugi (úff, ég fékk mína fyrstu Macintosh Plus tölvu þegar ég var 10-11 ára).  Ég er Apple-nörd og ég geri mér alveg grein fyrir því hversu fáránlegt það er að kaupa iPad þegar að maður á nú þegar iPhone og Apple fartölvu.

  • Ég borgaði um 550 dollara fyrir iPadinn (500 + skattur), sem eru um 4.300 sænskar.  Það er minna en flestar Netbook fartölvur kosta hérna í Svíþjóð.  Ég hef einmitt keypt tvær Windows netbook fartölvur fyrir Serrano og þær eru báðar fokking drasl.
  • iPad hefur ekki breytt lífi mínu og ég gæti vel lifað án iPad.   Þetta er kannski ekki merkar yfirlýsingar, en ég gæti hins vegar sagt að iPhone-inn minn hafi algjörlega breytt því hvernig ég virka dags daglega og þegar ég hef reynt að lifa án hans í nokkra daga þá finnst mér allir símar og öll tæki vera ómöguleg.  iPad er ágæt viðbót, en alls engin bylting einsog iPhone hefur verið í mínu lífi.
  • Ég nota iPad nánast eingöngu þegar að ég sit í sófanum og er að lesa blogg, lengri greinar eða tölvupóst.  Ég held að án efa sé þetta besta tækið, sem ég hef fundið fyrir slíkt.  Að nota forrit einsog NetNewsWire (RSS lesari) og Instapaper (sem vistar lengri greinar og gerir þær auðlæsilegri) er algjörlega frábært.  Það að halda á skjánum og hafa hann fyrir framan sig er einfaldlega miklu þægilegra en að lesa á fartölvu.  Plús það að iPad hitnar nánast ekki neitt, öfugt við til dæmis fartölvuna mína.
  • iPad held ég að myndi aldrei nokkurn tímann koma í staðinn fyrir tölvu á heimilið.  Hann er ágætis viðbót, en ég gæti varla mælt með kaupum á iPad nema ef að fólk hugsar sér hann sem viðbót við núverandi tölvu.
  • Það er ferlega tímafrekt og leiðinlegt að skrifa á iPad skjá lyklaborðið.  Ég er í raun mun fljótari að skrifa á iPhone-inn minn með þumlunum.  Að vissu leyti er það 3- ára reynsla af iPhone, en svo er bara eitthvað óþægilegt við iPad lyklaborðið og stærðina á því.  Auk þess eru íslenskir stafir óþægilegir (það þarf að halda niðri D til að fá Ð og svo framvegis) sem hægir enn frekar á skrifunum.  Ég nenni varla að skrifa meira en 1 línu email á iPad.
  • Það er ótrúlega þægilegt að horfa á vídeó á iPad – stundum finnst mér þægilegra að gera það en á sjónvarpi.  Youtube forritið er algjör snilld, en það er frekar pirrandi að maður þurfi að synca sjónvarpsþætti úr iTunes til að horfa á þá.  Ég er bara með 16 gb minni á mínum iPad og það dugar skammt.  Betra væri ef hægt væri að stream-a efni úr iTunes safninu mínu, svo að ég þyrfti ekki alltaf að tengja iPadinn við tölvuna mína til þess að fá nýja þætti.  Ég trúi ekki öðru en að einhver hjá Apple sé sammála mér.
  • Helsti gallinn við iPad enn sem komið er er aðallega að það eru ekki nógu mörg spennandi forrit til.  Ég fór í gegnum þetta og það eru ekki nema 5 forrit, sem ég hef keypt mér og nota reglulega: NetNewsWire til að lesa blogg, Instapaper fyrir lengri greinar, Dropbox til að færa skrár inná iPadinn, Twitteriffic til að lesa Twitter og ESPN Score center til að skoða ESPN.  Fleira er það varla.  Ég er jú með Evernote, Gowalla og eitthvað fleira þarna inná, en ég nota þau forrit mun meira á iPhone en iPad.

    Þetta mun þó væntanlega breytast.  Ég get til að mynda ekki beðið eftir því að fá SVT (sænska ríkissjónvarpið) forrit á iPadinn.  Þeir eru með algjörlega frábært forrit fyrir iPhone (sem virkar því á iPad), en myndgæðin eru of léleg til að njóta á iPad.

  • Ég hef ekki enn prófað skemmtilega eða spennandi leiki á iPadinum, en ég er viss um að þeir muni koma. Flestir sem ég var spenntur fyrir (Plants vs Zombies t.d.) eru leikir, sem passa einhvern veginn alveg jafn vel á iPhone.

Semsagt, iPad er frábært tæki í vissum tilfellum.  Ég tek ekki lengur fartölvuna heim með mér úr vinnunni, heldur skoða ég frekar póst og RSS á iPad-inum einfaldlega vegna þess að það er skemmtilegra og þægilegra.

Og þetta tæki hefur öll tækifæri til að verða enn frábærara þegar að forritin verða betri.  Þetta kemur ekki í stað fyrir heimilistölvuna, en er frábær viðbót fyrir þá sem eru jafn tækjasjúkir og ég.

Pressan.is – MYNDIR

Ég skil ekki alveg þessa frétt hjá Pressunni: Hvað varð um fallega hverfið mitt? Allt að brotna niður og borgin gerir ekkert – MYNDIR

Þarna tekur Pressan þessa frábæru bloggfærslu, vitnar í tvo hluti úr henni og setur svo inn allar myndirnar á sitt vefsvæði. Það er nákvæmlega engu bætt við upphaflega bloggfærslu. Að vísu er talað um hver Bjarni er, en það eru allt upplýsingar, sem eru mjög aðgengilegar á síðu Bjarna.

Þetta er hluti af einkennilegri hegðun sem ég sé bara á íslenskum vefsíðum – að í stað þess að vísa bara á upphaflegu heimildina, þá er allur textinn afritaður yfir á viðkomandi vefsvæði og ekki einu sinni hafður með tengill í upphaflega grein. Og oft á tíðum er engu bætt við upphaflegt efni greinarinnar. Þetta er stundað grimmt til dæmis á Eyjunni.

Af hverju er ekki bara látið nægja að vísa í upphaflega heimild? Halda menn að lesendur séu svona latir eða að þeir geti ekki lesið efni, sem er ekki nákvæmlega eins uppsett og allt hitt efnið á viðkomandi síðu? Eða að fólk viti ekki hvernig tenglar yfir á önnur vefsvæði virki?

Á Lady Gaga tónleikum

Síðustu mánuði hef ég fengið að hlusta á Lady Gaga ansi oft.  Hún er í miklu uppáhaldi hjá Margréti og það þýðir að í tíma og ótíma hef ég heyrt lögin hennar.  Ég hélt því fram við Margréti að ég þekkti bara eitt lag með Lady Gaga (Pokerface) en ég komst að því að það var nær því að ég þekkti 10 lög með henni.

Fyrir nokkrum vikum buðust mér svo boðsmiðar á tónleika með henni hérna í Globen.  Lady Gaga hafði selt upp tvö kvöld í Globen og við fengum miða á fyrra kvöldið í gegnum auglýsingastofunna okkar hérna í Stokkhólmi.

Ég var ekkert sérlega spenntur fyrir tónleikunum fyrirfram, en ég verð að segja að þeir komu mér skemmtilega á óvart.  Tónleikarnir eru settir upp sem nokkurs konar leikrit eða ópera.  Sviðið var einsog leikmynd í leikhúsi og tónleikarnir skiptust í 4 hluta, sem voru með ólíkar sviðsmyndir og hún í ólíkum búningum.   Á milli laga (kannski í 3-4. hverju lagi) kom upp risastór tjald með einhverjum stuttum vídeóskotum (oftast undir Dance in the Dark).  Þetta þýddi að tónleikarnir voru einsog lítið leikrit með söguþræði.

Þetta hljómar kannski ekkert alltof spennandi, en þetta gekk ótrúlega vel upp.  Ég komst að því á tónleikunum að ég þekkti auðvitað fulltaf lögum með Lady Gaga og þótt að ég hefði ekki verið að tapa mér, grátandi og öskrandi einsog 13 ára stelpurnar fyrir aftan okkur, þá skemmti ég mér bara ótrúlega vel.  Lady Gaga er nefnilega helvíti flott og hæfileikarík söngkona, sem hefur samið alveg helling af alveg ótrúlega grípandi lögum.

Eftir tónleikana var ég svo með lög með henni nánast stanslaust á heilanum.  Fyrst var stef úr Dance in the Dark, svo kom Bad Romance og Telephone og öll hin lögin.  Í vikunni sá ég að þetta gekk ekki lengur og setti tónlist frá henni inná iTunes hjá mér.  Síðan þá hef ég varla hlustað á aðra tónlist.

Þannig að á nokkrum vikum þá hef ég farið frá því að lýsa frati á Lady Gaga yfir í það að hlusta á hana í símanum á hverjum degi.  Gott popp getur haft svona áhrif á mann.

Fyrsta vikan á Kungsbron

Núna eru 10 dagar síðan að við opnuðum Serrano á Kungsbron. Einsog ég hafði skrifað hérna áður þá er þetta stóra prófið fyrir Serrano hérna í Svíþjóð, því þetta er staður á besta stað í miðbæ Stokkhólms.

Staðurinn hefur gengið gríðarlega vel fyrstu dagana. Það hefur verið biðröð útá gangstétt í hverju einasta virka hádegi síðan að við opnuðum og við þurftum að beina biðröðinni í annan farveg til þess að það gerðist ekki alltaf. Við vorum líka með stóran event á 5.maí, sem er hátíðsdagur í Mexíkó. Þá dreifðum við miðum um allan miðbæinn þar sem fólk gat fengið ókeypis burrito. Það er skemmst frá því að segja að úr því varð ein allsherjar geðveiki. Við afgreiddum á staðnum á Kungsbron fleira fólk en við afgreiddum í Kringlunni tveim dögum fyrir síðustu jól (sem var stærsti söludagurinn okkar hingað til).

Fyrir mig persónulega þá hafa þetta verið skemmtilegir dagar. Í fyrsta skipti í langan tíma hef ég unnið mikið sjálfur á staðnum í afgreiðslunni. Ég hef verið að taka á móti kúnnum við tortilla grillið og tekið við pöntunum frá fólki. Þetta hefur verið skemmtilegt og maður kemst í betri tengsl við staðinn og viðskiptavinina. Anders rekstrarstjóri hefur svo verið mikið í salnum að spjalla við kúnnana og það er óhætt að segja að viðbrögðin við matnum og staðnum hafi verið frábær hjá kúnnum. Þannig að við erum mjög bjartsýn fyrir framhaldið.

Hérna eru nokkrar myndir af staðnum:

Goseyjan og afgreiðslan á staðnum.
Salurinn
Salurinn.
Staðurinn að utan
Staðurinn að utan.

The Top 50 Best Restaurants 1-50 | The World’s 50 Best Restaurants

The Top 50 Best Restaurants 1-50 | The World’s 50 Best Restaurants. – Listi frá San Pellegrino fyrir árið 2010.  Noma í Kaupmannahöfn er kominn uppí efsta sætið og telst því besti veitingastaður í heimi samkvæmt þeim lista.  Af sænsku stöðunum fer Mathias Dahlgren uppí 25.sætið en Oaxen Krog dettur niður í 42.sætið.  Serrano er ekki meðal 50 efstu, en hlýtur að vera kraumandi undir.  🙂

3 dagar í opnun

Ég setti inn nokkrar myndir á Flickr frá byggingu staðarins á Kungsbron. Við munum svo opna á fimmtudag.

Það er enn frekar mikið drasl inná staðnum, þar sem að allir birgjar eru að koma með sendingar, en þetta lítur samt mjög vel út og ég held að það verði ekkert sérstaklega mikið stress fyrir opnunina.