Hagfræðingur heimsækir MæSpeis

Nota bene, tölurnar sem voru hérna inni fyrst voru aðeins skakkar. Ég lagaði þær til.

[Ég](http://myspace.com/einaro) er búinn að vera sæmilega hooked á þessu MySpace dæmi undanfarna daga. Eftirfarandi hluti hef [ég](http://myspace.com/einaro) lært:

  • Stelpur eignast fleiri vini en strákar
  • Íslenskar stelpur kalla allar vinkonur sínar “sæta”.
  • Það er reyndar ótrúlega mikið af sætum íslenskum stelpum á MySpace, en samt…
  • MySpace er ótrúlega ávanabindandi.
  • Fólk hefur gaman af því að taka sjálfsmyndir. Ég er ánægður að sjá að ég er ekki einn um það.
  • Skemmtileg tölfræði:
    Fjöldi íslenskra stelpna á lausu á aldrinum 20-30 á MySpace: 4.969.
    Fjöldi íslenskra stráka á lausu á aldrinum 20-30 á MySpace: 4.369.
    Semsagt fleiri íslenskar stelpur á lausu en strákar. Húrra fyrir því!
  • Fjöldi íslenskra stelpna á aldrinum 20-30 á lausu og á MySpace til að deita: 194.
    Fjöldi íslenskra stráka á aldrinum 20-30 á lausu og á MySpace til að deita: 346.
  • Semsagt 7.9% karlmanna og bara 3,9% íslenskra stelpna á lausu á MySpace segist vera þar til að deita. Annaðhvort eru allir single Íslendingar svona ofboðslega ánægðir með að vera single, eða þá að þau vilja af einhverjum ástæðum ekki nota MySpace í makaleit.
  • Fjödli stelpna á lausu sem eiga barn (allur aldur): 450
    Fjöldi stráka á lausu sem eiga barn (allur aldur): 170
  • Íslenskar konur á MySpace á aldrinum 20-30:

    Giftar: 288
    Fráskildar: 54
    Í sambandi: 1916
    Á lausu: 4.969.

    Semsagt samkvæmt MySpace þá eru 68,7% kvenna á Íslandi á aldrinum 20-30 á lausu!!!

    Augljóslega er ekki svo hátt hlutfall kvenna á íslandi á lausu, þannig að fólk á lausu virðist sækja í MySpace. Samt virðist enginn viðurkenna makaleitina. 🙂

Jammmm…

Stones og Exile

Ég tel mig vera þokkalega inní tónlistinni í dag. Ég er að hlusta á Joanna Newsom og fíla hana og ég fattaði Sufjan áður en allir föttuðu hann og ég hlusta á hip-hop og kántrí og allt þar á milli. Ég elska tónlist.

En ég geri mér líka grein fyrir því að megnið af góðri popptónlist var gefið út áður en ég fæddist. Og ég hef átt mín tímabil. Ég hlustaði á lítið annað en Bítlana þegar ég var 16 ára og þegar ég var 18 hlustaði ég á Pink Floyd. Svo hef ég átt mín Doors, Led Zeppelin og auðvitað Neil Young og Bob Dylan skeið (er ekki enn kominn af þeim tveim síðustu).

En þrátt fyrir að ég hafi dýrkað og dáð Bítlana (og geri enn – Fokk hvað LOVE er mikil snilld) þá hefur mér alltaf þótt Rolling Stones vera alveg yfirmáta hallærislegir. Ég veit ekki almennilega af hverju. Það hefur bara verið svo margt sem hefur farið í taugarnar á mér og gert það að verkum að mér hefur fundist þeir vera gamlir, lummó og lúðalegir. Ég hugsaði útí þetta af hverju og fann nokkrar ástæður:

– Mér finnst Satisfaction hræðilega leiðinlegt lag og þar sem margir telja það besta lag Stones, þá bara missti ég áhugann. Plús það að hellingur af leiðinlegum cover útgáfum af Satisfaction hefur verið gefinn út.
– Þetta endalausa blaður um að þeir væru að koma til Íslands og þessi endalausu viðtöl við þennan sýslumann á Ísafirði gerðu mig pirraðan.
– Ég man eftir Mick Jagger í 80’s fötum.
– Og það mikilvægasta er að þeir eru enn að. Paul McCartney getur verið með ólíkindum hallærislegur, en af því að Bítlarnir hættu þá hef ég aldrei tengt hans hallærisleika á seinni árum við Bítlana. Þeir hafa alltaf verið ungir og töff í mínum huga. Stones urðu hins vegar gamlir saman og því erfiðara að ímynda sér að þeir hafi einu sinni verið svölustu gaurarnir í heiminum.

Og þess vegna gaf ég þeim aldrei sjens. Jú jú, ég átti einhverjar plötur með þeim (Aðallega nýrra efni) og ég fílaði Sympathy for the Devil og Out of Time og einhver önnur lög. En undanfarna mánuði hefur áhuginn aukist. Ég byrjaði t.a.m. að fíla Gimme Shelter og í framhaldi af því alla Let It Bleed plötuna. En það má segja að bíómyndin The Departed hafi gert gæfumuninn.

Hún inniheldur nefnilega tvö stórkostleg Stones lög. Annars vegar Gimme Shelter, sem er eitt magnaðasta lag allra tíma (ég fæ gæsahúð þegar ég hlust á það) og svo Let It Loose, sem ég hafði aldrei heyrt áður. Stuttu seinna las ég svo þessa [grein á MeFi](http://www.metafilter.com/mefi/56111) þar sem Stones aðdáendur tala um hversu lengi það geti tekið þig að komast inní *Exile on Main Street*, en hversu merkileg upplifunin væri þegar maður loksins fattaði plötuna.

Og eitthvað vakti forvitni mína. Rolling Stone tímaritið [valdi Exile númer 7 á listanum yfir bestu plötur allra tíma](http://www.rollingstone.com/news/story/5938174/the_rs_500_greatest_albums_of_all_time), sem hlýtur að telja eitthvað. Ég meina fokk, uppáhaldsplatan mín kemst bara í 9. sætið og allar plöturnar fyrir ofan *Exile* hafa verið mínar uppáhaldsplötur á einhverjum tíma (Sgt. Pepper’s, Pet Sounds, Revolver, Highway 61, Rubber Soul og What’s Going On).

Þannig að ég ákvað að prófa *Exile on Main Street*. Og ég byrjaði að hlusta og hef ekki stoppað síðan. Samkvæmt iTunes hef ég rennt í gegnum hana alla í kringum 15 sinnum og ég **dýrka þessa plötu**. Þetta er ofursvalt rokk, sem væri jafnkúl þótt það væri gefið út í dag en ekki fyrir 34 árum.

Ég hef hlustað á hana í bílnum og sprengdi næstum því hátalarana þegar ég hlustaði á fyrsta trommuslátt Charlie Watts í Rocks Off (*”The sunshine bores the daylights out of me”* hlýtur að vera einhver flottasta lína ever). Ég hef átt bágt með að vera ekki einsog einhver gospel söngvari þegar ég hef verið að söngla laglínuna úr Shine a Light (*”may the good Lord shine a light on you, make every song you sing your favourite tune”*) og ég elska Tumbling Dice og All down the line.

Og ég gjörsamlega dýrka, dái og elska *Let it Loose*. Betra lag hef ég hreinlega ekki heyrt lengi lengi lengi. Gítarinn í byrjuninn á laginu kallar fram einhverja blöndu af tárum og gæsahúð og ég elska textann. Það sem meira er, við svona 10. hlustun fattaði ég fyrst að Mick Jagger er snillingur: mega töffari, æðislegur texta höfundur og stórkostlegur söngvari. Hann er kannski ekki jafn kúl núna þegar hann er orðinn sextugur. En 29 ára syngjandi inná *Exile* er Jagger fokking goðsögn.

Botnvörpur

Maður verður ekkert voðalega stoltur við að [lesa svona hluti](http://www.washingtonpost.com/wp-dyn/content/article/2006/12/02/AR2006120200937.html).

Fréttir?

Tvennt sem ég mun banna þegar ég næ loks völdum hérna á Íslandi.

– Viðtöl við börn í sjónvarpi nema þau hafi eitthvað fréttnæmt fram að færa.
– Viðtöl við jólasveina.

Bíðið bara!

Ég komst áfram, ég er að fara til Reykjavíkur maður!

Nú horfði ég allavegana á tvo þætti af hinu íslenska Ædoli og tel mig því vera sérfræðing um það fyrirbrigði. Samt get ég ekki fyrir mitt litla líf séð hver er munurinn á Idol og X-factor fyrir utan það að eldra fólki er hleypt inn. Getur einhver skýrt þetta út fyrir mér?

Jú, kynnirinn er umtalsvert sætari en Simmi og Jói. Það er þó eitthvað.

Ég er búinn að horfa á þetta með öðru auganu á meðan ég rembist við að setja nöfn við allar myndirnar, sem ég tók i Asíu. Ég kom með um 1.000 myndir heim en er búinn að eyða út 400 myndum. Sem skilur 600 myndir eftir, sem er einmitt hreinasta geðveiki. Þetta verður eilífðarverkefni.

Vodka

Samkvæmt [fréttatilkynningu](http://www.egils.is/egils/is/frettir/breytingar_a_afengisgjaldi_munu_valda_storhaekkun_a_afengisverdi_og_auka_tekjur_rikissjods_verulega._0_248597.news.aspx) frá Ölgerðinni mun lítrinn af Smirnoff vodka kosta 5.410 krónur eftir breytingar á áfengislögum í mars.

Ég endurtek. Einn líter af vodka á **FIMMÞÚSUNDFJÖGURHUNDRUÐOGTÍU KRÓNUR!**

Þetta finnst mér ekki fyndið. Verða Sjálfstæðismenn ekki ánægðir fyrr en maður er alveg hættur að drekka? Djöfulsins neyslustýring og forsjárhyggja hjá þessum svokallaða hægriflokki.

([via Kratabloggið](http://nykratar.blog.is/blog/kratabloggid/))

Skiptinemi

Einsog flestir fyrrverandi skiptinemar þekki ég stressið tengdu því að fá að vita hvernig fósturfjölskylda myndi verða. Sem betur fer var ég ólýsanlega heppinn með mína fjölskyldu í Caracas.

Þessi [Pólverji var ekki alveg jafn heppinn](http://www.spiegel.de/international/0,1518,448350,00.html)

>When Polish student Michael Gromek, 19, went to America on a student exchange, he found himself trapped in a host family of Christian fundamentalists. What followed was a six-month hell of dawn church visits and sex education talks as his new family tried to banish the devil from his soul

og þetta:

>My host parents treated me like a five-year-old. They gave me lollipops. They woke me every Sunday morning at 6:15 a.m., saying ‘Michael, it’s time to go to church.’ I hated that sentence. When I didn’t want to go to church one morning, because I had hardly slept, they didn’t allow me to have any coffee.

Greinin öll er mögnuð. Ég hætti einmitt við að fara til Bandaríkjanna af því að ég var hræddur um að enda á einhverju krummaskuði. Það að velja Venezuela í stað Bandaríkjanna er sennilega meðal bestu ákvarðanna ævi minnar.

[via Kottke](http://www.kottke.org)