Ég byrjaði dálítið seint að fíla HAM og ég var ekki svo kúl að hafa mætt á lokatónleikana þeirra á Tunglinu þegar ég var 17 ára. Eftir að þeir hættu að spila þá byrjaði ég þó að hlusta á þeirra eldri plötur og varð hrifinn. Ég var líka hrifinn af sóló projektum Sigurjóns Kjartanssonar og átti báðar Olympíu plöturnar, sem ég hlustaði á þegar ég var 17-18 ára. Það vakti alltaf mikla lukku þegar ég setti þær plötur á í partýjum.
Þegar ég heyrði fyrst um það að þeir ætluðu að gefa út nýja plötu þá hafði ég eflaust einsog flestr miklar efasemdir um að það yrði gott stöff. Það er bara ekki svo algengt að menn, sem voru í frábærri rokkhljómsveit þegar þeir voru undir þrítugt geti komið aftur 15 árum seinna og ennþá gert góða tónlist.
Eflaust hafa flestir lesið dóma um nýju plötuna þeirra, en það er alveg þess virði að endurtaka það hér: Þessi plata er fokking snilld! Ég hef ekki hlustað eins mikið á neina aðra plötu á þessu ári og lögin eru nánast öll frábær. Lögin sem hafa verið í spilun á Íslandi (Sviksemi og Ingimar) eru algjörlega frábær, en ég held ekki minna uppá lög einsog Veislu Hertogans Svartan Hrafn og Heimamenn. Þetta er einfaldlega besta rokkplata, sem ég hef hlustað á lengi.
Hægt er að kaupa plötuna á Gogoyoko fyrir fólk í útlöndum einsog mig, eða þá bara labba útí næstu búð.
Working on a Dream – Bruce Springsteen. Hápunkturinn á þessu tónlistarári mínu var þegar við Margrét fórum á stórkostlega Bruce Springsteen tónleika á Stadion í Stokkhólmi. Platan sem kom út á árinu var frábær og lögin sem hann gaf út í kjölfarið á henni (The Wrestler og Wrecking Ball) voru bæði í gríðarlegu uppáhaldi hjá mér. Tónleikarnir voru ótrúlegir og þess vegna stendur þessi plata enn meira uppúr á árinu. Besta lag: Outlaw Pete, sem var hreint stórkostlegt á tónleikunum.
Sigur Rós – Með suð í eyrum við spilum endalaust: Bestu plöturnar og þær eftirminnilegustu eru ávallt þær sem maður getur tengt við ákveðna atburði eða ákveðin skeið í lífinu. “Með Suð í eyrum” kom út um mitt sumar 2008, sem er án efa besta sumar ævi minnar.