Ríkiseinokun er snilld

Geir bendir á þessa grein af Sellunni, sem er vefrit.

Þar skrifar Geir Guðjónsson um ÁTVR.

Ríkiseinokun – Þetta er vont orð, það hljómar illa og svona tala bara vondir menn sem vilja lýðræðinu illt o.s.frv… Ég verð að viðurkenna að ég er einn af þessum mönnum sem vilja alveg ríkiseinokun. Ég sé ekkert því til vansa. Hvað er svona vont við það að ríkið eitt sitji að ákveðinni þjónustu?

Þegar þetta er skrifað er árið 2001 og svona menn ganga lausir á Íslandi.

Klipping og fleira

Ég komst því miður ekki að sjá vitleysinginn Pat Buchanan tala á þriðjudag. Um 300 manns komust ekki inn, svo vinsæll var hann. Ég eyddi því kvöldinu bara í að lesa meira um leikjafræði (nánar tiltekið uppboðsfræði).

Það var fjallað um Buchanan í Northwestern dagblaðinu í gær. Greinarhöfundur segir að Buchanan hafi endað með smá sögu um hlutverk hans í forsetakosningunum 2000. Buchanan segist fyrir kosningar hafa beðið til Guðs um að framboð hans yrði ekki til þess að Al Gore yrði kosinn forseti. Buchanan sagði:

“God said to me, I’m going to have Jews and Blacks go out to the polls and think they’ve voted for Al Gore and they’ll vote for you. But Pat, don’t ever try a stunt like this again.”

Ég fór í klippingu í dag. Sá sem klippti mig var karlmaður, um sextugt, með hvítt, sítt, krullað hár. Mér leist ekkert á hann til að byrja með, en hann stóð sig bara ágætlega.

Hiti

Hver hefði trúað þvi? Það er 22 stiga hiti í miðjum nóvember í Chicago.

Ég fer sko á stuttermabol í skólann í dag.

Hagfræði eða Pat Buchanan

Ég er búinn að vera að læra hagfræði hér á bókasafninu í allan dag.

Klukkan átta er hins vegar fyrirlestur á campus með spekingnum Pat Buchanan. Ég er ekki alveg búinn að gera upp við mig hvort ég eigi að fara yfir hagfræðina einu sinni enn, eða kíkja á Buchanan.

GWU

Eftir að Björgvin var að tala um George Washington fótboltaliðið fór ég og skoðaði síðuna þeirra, sem hefur tekið miklum framförum frá því að ég kíkti síðast.

Þar er m.a. stutt lýsing á varnarjaxlinum Friðrik Ómarssyni. Í stuttu æviágripi á síðunni kemur fram eftirfarandi:

AT GW: A strong left-footed player…can play outside midfielder or defender…provides attacking speed down the flank..scored first collegiate goal against Georgetown (9/4/00)
PERSONAL: Born April 14, 1977 in Reykjavik, Iceland…son of Omar and Aslaug Omarsson…has one brother, Thorunn (29) and a sister, Elisabet (17)…international business major.

Ég er nú búinn að þekkja Friðrik lengi og ég er nokkuð viss um að hann eigi engan bróður.

Ég er líka nokkuð viss um að mamma hans Friðriks heitir ekki Áslaug Omarsson.

Hagfræði umræða????

Skemmtilegt að núna, þegar ég er að læra undir miðsvetrarpróf í hagfræði, skuli fullt af fólki vera að skrifa á netinu um hvað hagfræðin sé nú skemmtileg og áhugaverð. Sjá: Björgvin, Már, Bjarni.

Ég gleymi því oft, svona rétt fyrir próf, að hagfræðin er mjög skemmtileg. Oft þegar ég er búinn að vera að rýna of lengi í formúlur og módel þá á ég til að bölva sjálfum mér fyrir að hafa valið þetta fag. Það var reyndar tilviljun að ég valdi hagfræðina sem aðalfag. Ég man að í 6. bekk leiddist mér oft í hagfræðitímum, en þegar leið að stúdentsprófi fannst mér allt í einu (mínum vinum og kærustu til mikillar furðu) Wonnacott & Wonnacott hagfræðibókin mín alveg ofsalega spennandi. Það var einsog það opnaðist nýr heimur, þótt það hafi aðeins verið í nokkrar vikur.

Ég á oft auðvelt með að gleyma því hversu skemmtileg og spennandi hagfræðin er, en það rifjast snögglega upp fyrir mér þegar ég er t.d. að tala við prófessorarna mína eftir fyrirlestra eða þegar ég les um eitthvað nýtt og spennandi.

Ég er afskaplega sammála því, sem Björgvin (hafnabolta unnandi) segir í síðasta pistli sínum. Því miður eru alltof margir, sem kjósa að tala hátt um hin ýmsu málefni hagfræðinnar án þess að hafa nokkurt vit á þeim hlutum, sem liggja þar að baki. Kannski er hagfræðin bara ekki nógu heillandi fræðigrein fyrir almenning. Björgvin bendir réttilega á að það þurfi fleiri hagfræðibækur fyrir almenning, sem tengi saman hagfræðihugtök og daglegt líf.

Merkilegar myndir

Ég ætla einhvern tímann að setja inn fullt af myndum frá hinum ýmsu ferðalögum mínum, hérna inná síðuna.

Í gær var ég eitthvað að fara í gegnum gamlar skrár á harða disknum mínum og þá rakst ég á þessa mynd, sem er ein af mínum uppáhaldsmyndum frá Suður-Ameríku ferðinni. Þarna á myndinni eru Sölvi Blöndal, Borgþór Grétarsson, Emil H. og (fyrir aftan Emil) Friðrik Ó.

AArrrrrrrggggggggghhhhhhh!!!!!!!!!!!

Bíllinn var dreginn í morgun. Ég hafði lagt honum í götunni minni í gær en í morgun var verið að þrífa götuna, svo hann var dreginn í burt. Tekið skal fram að í gær voru ENGAR viðvaranir á götunni um það að það ætti að fara að hreinsa hana.

Ég er svo reiður að ég gæti öskrað. Reyndar er ég búinn að öskra. Svo að Hildur þurfi ekki að þola fleiri öskur, þá ætla ég að öskra á netinu: DJÖFULL OG DAUÐI!!!!!!!!!!!!

Ah, nú líður mér aðeins betur.

Það kostar einmitt 110 dollara að fá bílinn aftur. Ég verð brjálaður að hugsa um hversu skemmtilegra væri að nota 110 dollara í eitthvað annað.

Vitlausir Íslendingar Ég á varla

Ég á varla orð yfir þessari hræðslu Íslendinga við Anthrax. Hér í Bandaríkjunum, sem er nota bene EINA landið, þar sem anthrax hefur fundist undanfarið, er nær hætt að fjalla um þessi mál í fréttum.

Einu tilvikin, sem hafa sannast hafa verið árásir á fréttastofur og ríkisbyggingar hér í Bandaríkjunum. Því spyr ég, af hverju í ósköpunum heldur fólk að Ísland sé næsta skotmark???

Til dæmis er núna frétt á forsíðu mbl.is um hjón í HAFNARFIRÐI

, sem halda að þau séu með Anthrax. Einnig sá ég að póstmiðstöð Íslandspóst hefði verið lokað í meira en sólarhring vegna ótta við sýkingu. Þetta er ótrúlegt.

Á innlendum fréttum eru, þegar þetta er skrifað, eftirfarandi fyrirsagnir:

  • Hjón hljóta fyrirbyggjandi lyfjameðferð gegn miltisbrandi
  • Eiturefnasveit kölluð að íbúðablokk í Hafnarfirði
  • Engin póstdreifing á morgun hjá Íslandspósti
  • Duft sem fannst í bögglapósti til rannsóknar
  • Torkennilegt duft í bögglapósti
  • Duftbréf barst í hús við Sléttuveg
  • 13 starfsmenn Íslandspósts sendir í læknisrannsókn vegna duftsbréfs
  • Enginn miltisbrandur í dufti frá Landsbanka Íslands
  • Niðurstaða rannsóknar á dufti úr Landsbankanum liggi fyrir í dag
  • 10 starfsmenn Landsbankans í lyfjameðferð gegn miltisbrandi
  • Engar sérstakar varúðarráðstafanir vegna jólapósts
  • Bréf með hvítu dufti flutt á rannsóknarstofu
  • Húsi Landsbankans lokað vegna torkennilegs bréfs

Þetta gera þrettán (já 13) fréttir. Sú elsta er frá því klukkan 16, 6.nóv og sú nýjasta kl 21, 7. nóvember. Þannig að á rétt rúmum sólarhring eru þrettán fréttir um miltisbrand á Morgunblaðinu.

Íslendingar eru alltaf að gera grín að Bandaríkjamönnum og hvernig þeir bregðast við hinum ýmsu hlutum. Ég held samt að bæði fjölmiðlar og almenningur hér í Bandaríkjunum hafi tekið á þessum hlutum með mun meiri ró og skynsemi heldur en á Íslandi.