Allaire

Ég var að lesa á MAC NN að Macromedia og Allaire væru líklega að sameinast. Macromedia framfremleiðir hinn ágæta Dreamweaver en Allaire framleiðir HomeSite, sem er að mínu mati langbesta vefhvefhönnunarforritið fyrir PC. Það verður fróðlegt að sjá hvað verður úr þessum samruna.

Windows XP

Microsoft gátu náttúrulega ekki verið eftirbátar Apple í þessum stýrikerfanöfnum. Nýja stýrikerfið hjá Apple heitir OS X en nýja Windows heitir Windows XP. Það er sennilega þetta P, sem gerir gæfumuninn.

Hannibal

Við Hildur fórum að sjá Hannibal í gær. Ég var búinn að heyra ýmsa misjafna hluti um þessa mynd, svo ég fór í raun ekki með of miklar væntingar á myndina. Hún var bara nokkuð góð. Hún er ekki nærri því eins góð og Silence of the Lambs, en samt fín.

Það þýðir ekkert að fara á þessa mynd og búast við einhverju líku fyrri myndinni. Ofbeldið í Hannibal er mun grófara, sem er galli. En á heildina þá var þetta bara fín mynd.

Anthony Hopkin

Hannibal verður frumsýnd á morgun. Í tilefni þess er Anthony Hopkins búinn að vera í hverjum einasta mögulega spjallþætti undanfarna daga. Þetta er orðið fáránlegt. Einnig hef ég aldrei séð neina mynd eins mikið auglýsta. Dómarnir eru búnir að vera frekar misjafnir, en það breytir því ekki að ég er að fara í bíó að sjá Hannibal á morgun.

Prófahrina

Ég er búinn að vera í ansi skemmtilegri prófahrinu. Þess vegna hef ég ekkert skrifað á netið. Ég hélt alltaf að þegar ég væri búinn í prófunum að þá myndi ég hafa alveg fullt af segja. En ég hef ekkert að segja. Kannski að mér detti eitthvað í hug á morgun.

Ég er reyndar ekki alveg búinn, því að ég er að fara í stærðfræðipróf á morgun. Ég, af einhverjum ástæðum get bara ekki lært undir það próf. Sem betur fer er ég að fara að keppa í fótbolta í kvöld, þannig að ég hef góða afsökun fyrir því að vera ekki að læra.

Knattspyrnuveisla

Það er búin að vera sannkölluð knattspyrnuveisla hér við Simpson stræti undanfarna daga. Málið er nebbnilega að við erum komin með bestu stöð í heimi, Fox Sports World. Þessi stöð sýnir bæði enska og ítalska boltann í beinni, auk þess að á hverjum degi er Sky Sports íþróttafréttir með öllu nýjasta úr enska boltanum.

Ég er því búinn að horfa á flestar útsendingar frá enska boltanum. Það er sannkölluð hátíð að hlusta á ensku Sky Sports þulina, eftir að maður hafði vanist því að hlusta á íslensku íþróttaþulina. Það er ekki hægt að líkja þeim saman. Á laugardaginn er svo bein útsending frá Liverpool og Leeds.

Ég horfði á snilldina í gær þegar Liverpool rústuðu Crystal Palace 5-0. Vandamálið við leikinn á laugardag er að hann byrjar klukkan 6 um morguninn. Ég er ekki alveg viss hvort ég nenni að vakna svo snemma. Kannski að ég taki leikinn bara upp.

Golden Globe

Ég er núna að horfa á Golden Globe verðlaunin. Þetta er búið að fara einsog maður átti von á. Við Hildur fórum í gær að sjá Traffic. Myndin er algjör snilld. Án efa ein besta mynd ársins. Allir ættu að sjá hana!

Rólegt

Annars ætlum við bara að vera róleg í kvöld. Við ætlum að fara á Traffic í bíó. Við reyndum að sjá hana um síðustu helgi en þá var allt uppselt, þannig að við fórum á Crouching Tiger Hidden Dragon, sem var reyndar snilld.

Richard Aschroft

Tónleikarnir í gærkvöldi voru bara fínir. Ekkert stórkostlegt. Double Door er lítill klúbbur, þar komast svona 500 manns inn. Aschroft var nánast einn á sviðinu með kassagítarinn sinn. Lögin hans eru náttúrulega öll róleg, þannig að það var bara mjög rólegt yfirbragð yfir tónleikunum. Þegar hann var á sviðinu voru tónleikarnir alger snilld.

Hann tók öll bestu The Verve lögin og lög af nýja disknum sínum. Vandamálið var bara að hann var alltof stutt á sviði, eða aðeins í um klukkutíma. Hefði hann verið lengur hefðu tónleikarnir geta talist frábærir. Samt fullkomlega peninganna virði.