Þá erum við búin að koma mér ágætlega fyrir hérna í íbúðinni. Ég byrjaði í skólanum í gær og líst mér bara ágætlega á tímana. Ég er í rússneskum bókmenntum, suður-amerískum bókmenntum, hagfræði og stærðfræði. Prófessorarnir virðast vera fínir. Einn bandaríkjamaður, sem kennir mér hagfræði, franskur stærðfræðikennari, einn Rússi og svo argentísk kona, sem kennir mér bókmenntir.
Bandaríkin
Ég var að lesa grein á heimasíðu Ágústs F. Hún endaði á þessum orðum:
Maðurinn sem lifði í eigin veröld. Maðurinn sem var, einsog bandarískur almenningur, einfaldur.Maður er nefndur… Ronald Reagan.
Það er gaman að sjá að Ágúst Flygering hefur fullkomnan skilning á bandarískum almenningi og á auðvelt með að alhæfa um Bandaríkjamenn.
Annars fer fátt fleira í taugarnar á mér en þegar misfrótt fólk er að fullyrða svona um fólkið, sem býr í sama landi og ég. Ég spyr Ágúst, hvaðan koma fötin þín, hvaðan eru bíómyndirnar, sem þú horfir á eða sjónvarpsefnið. Hvaðan eru vefsíðurnar, sem þú lest eða tölvuleikirnir, sem þú spilar eða tölvuforritin, sem þú notar? Hvernig getur þjóð, sem er svona voðalega einföld haft svona mikil áhrif jafnt á stjórnmálasviðinu, sem og á því menningalega?
Bandaríkin er frábær þjóð. Þjóð, sem laðar að sér gáfaðasta og hæfasta fólk í heiminum. Þar búa margir af hæfustu prófessorum, íþróttamönnum og listamönnum í heimi. Víst er fullt af fólki, sem er ekki ýkja frótt um alheiminn, en taka verður tillit til þess að Bandaríkin er það stórt land að utanríkismál eru ekki jafnmikilvæg fyrir Bandaríkjamenn og Íslendinga.
Það er gott að búa í þessu ágæta landi.
Tonight
and you know you’re never sure
but you’re sure you could be right
if you held yourself up to the light
and the embers never fade in your city by the lake
the place where you were born
believe, believe in me, believe
in the resolute urgency of now
and if you believe there’s not a tonight
tonight, so bright
tonight
we’ll crucify the insincere tonight
we’ll make things right, we’ll feel it all tonight
we’ll find a way to offer up the night tonight
the indescribable moments of your life tonight
the impossible is possible tonight
believe in me as i believe in you, tonight
Billy Corgan
Síðasta færslan
Þá er það sennilega síðasta færslan frá Íslandi. Ég á flug til Minneapolis klukkan 5 í dag og þaðan á ég tengiflug til Chicago. Get ekki beðið eftir því að byrja í skólanum aftur. Ég verð svo væntanlega með reglulegar uppfærlsur frá Bandaríkjunum enda miklu auðveldara að skrifa á vefinn þegar maður er í skóla. Lifið heil!
Ég sá það í sjónvarpinu
Ég sá það í sjónvarpinu að Stöð 2 ætlar að vera með íslenska útgáfu af Who wants to be a Millionaire. Ég er mikill aðdáandi þáttanna í Bandaríkjunum en einhvern veginn efast ég um að íslensku þættirnir verði jafnskemmtilegir. Það toppar einfaldlega enginn Regis Philbin, maðurinn er snillingur. Verðlaunin hérna á Íslandi eru líka frekar slöpp, ein milljón króna, eða 83 sinnum lægri en í Bandaríkjunum og 117 sinnum lægri en á Bretlandi.
Snillingurinn Jerry
Núna er ég loksins búinn að skrifa forsíðugrein á Hrekkjusvín. Hún birtist í dag undir heitinu: Snillingurinn Jerry og fjallar greinin um það þegar ég fylgdist með upptökum á Jerry Springer. Einnig skrifaði ég stutt um Dancer in the Dark.
LÍN
Jæja, þá eru bara þrír dagar þangað til að ég fer aftur út til Bandaríkjanna. Ég er búinn að vera að reyna að klára mín mál á íslandi í dag. Ég komst m.a. að því að LÍN reiknar gengi á lánum við enda hvers tímabils, þannig að ef bandaríkjadollar lækkar (sem hann hlýtur að gera, því hann er 83 krónur í dag), þá tapa ég fullt af pening. Það finnst mér ekki gaman!
Flott
Ég rakst á þessa síðu, stigur.com. Útlitið er flott.
Dancer In the Dark
Ég sá Dancer In the Dark úti í Danmörku. Myndin er snilld. Ætli ég skrifi ekki pistil um hana á Hrekkjusvín.
Danmörk
Jæja, þá er bara nokkuð langt síðan ég bloggaði síðast. Ástæðan fyrir því er að ég er búinn að vera í Danmörku síðustu daga. Fór með sölumönnum úr vinnunni í heimsókn til höfuðstöðva Stimorol, sem eru í Vejle á Jótlandi.
Við fórum á laugardaginn til Köben, þar sem við eyddum deginum á rölti um borgina. Um kvöldið fórum við svo í tívolí og svo fóru þeir yngstu út á djammið. Á sunnudag tókum við svo lest til Vejle. Á mánudag fórum við allir með sölumönnum Stimorol í ferð um búðir í nágrenni Vejle. Síðasta daginn sátum við svo fundi með markaðsstjóra Stimorol og skoðuðum verksmiðjurnar. Þetta var mjög skemmtileg ferð. Ég hvet svo bara alla til að kaupa Stimorol og V6.