Undirskrift "mín" hjá InDefence

Í kjölfar kommenta við þessa færslu á Silfri Egils þá athugaði ég hvort að einhver útí bæ hefði skráð mig í þessa undirskriftasöfnun hjá InDefence.

Og viti menn, ég sló upp kennitölunni minni á InDefence síðunni og þar var hún.

indefence

Ég hef semsagt ALDREI skráð mig hjá InDefence. Einhver aðili útí bæ hefur tekið mína kennitölu og skráð mig. Ég get ekki séð að ég hafi neinn möguleika á að taka mig útaf þessum lista.

Áramótaávarp 2009

Þetta er búið að vera frábært ár.

Þetta er búið að vera ár mikilla breytinga í mínu lífi. Ég flutti til útlanda, við stofnuðum veitingastað í öðru landi, ég fékk heilablóðfall, við Margrét ferðuðumst til margra landa og við eignuðumst okkar eigið heimili. Þegar ég horfi tilbaka get ég ekki annað en verið ótrúlega ánægður með þetta ár.

* * *

Stærsta breytingin er auðvitað sú að við Margrét fluttum til Svíþjóðar. Það var búið að vera ansi lengi á dagksrá hjá mér að flytjast frá Íslandi. Ég hafði byrjað að pæla í þessu nokkrum árum áður þegar að lífið mitt var mjög ólíkt því sem það er í dag. Það var í raun bara tilviljun að ég flutti frá Íslandi þegar að allt var við suðumark í janúar á Íslandi. Allt þetta ár hef komið þrisvar til Íslands í mislangar heimsóknir, en annars hef ég bara fylgst með ástandinu á netinu. Það hefur verið dálítið skrýtið, en það er líka hálf furðulegt hversu vel maður getur verið inní umræðunni með því að fylgjast með bloggsíðum og Feisbúk statusum hjá vinum sínum.

Dvölin í Svíþjóð hefur verið frábær. Við bjuggum fyrst í lítilli leiguíbúð við Folkungagötuna á Södermalm en í byrjun apríl fluttum við inní íbúðna okkar á Götgötunni. Sú íbúð er algjörlega frábær. Hún er í húsi frá 1890 á allra besta stað á Södermalm, sem er uppáhaldshverfið mitt í Stokkhólmi. Íbúðin okkar vísar inní garð, en um leið og við förum útum útidyrahurðina þá erum við komin í iðandi mannlíf fullt af verslunum, veitingastöðum og börum. Þetta er hverfi sem mér líkar afskaplega vel við að búa í.

Íbúðin hefur svo smám tekið á sig mynd. Margrét hefur auðvitað frábæran smekk og hún hefur stjórnað innkaupum á því dóti sem við höfum smám saman sankað að okkur. Það hefur kannski gengið hægt, en smám saman er íbúðin að verða einsog eftir okkar höfði. Enn er til dæmis álpappír í gluggunum á svefnherberginu, en það mun vonandi lagast á næsta ári.

* * *

Það hefur verið afskaplega fróðlegt að stofna fyrirtæki í Svíþjóð. Þetta fór allt saman rólega af stað, en sérstaklega frá því í haust hafa hlutirnir gengið hraðar fyrir sig og akkúrat núna erum við á fullu við að undirbúa opnun á stað númer 2, sem mun opna í Sundbyberg í lok janúar. Það verður glæsilegur staður með sætum fyrir um 40 manns. Það að opna í öðru landi hefur kennt mér ansi margt varðandi fyrirtækjarekstur, en það hefur hjálpað að ég hef haft frábær fólk í kringum mig, sem hefur komið mér í gegnum þetta ár – sérstaklega þegar að hlutirnir gengu ekki sem best. Næsta ár verður klárlega spennandi ár í rekstri Serrano í Svíþjóð.

Hérna heima hefur Serrano gengið gríðarlega vel og árið 2009 var langbesta ár okkar í sögunni.

* * *

Ég fékk heilablóðfall í mars. Ég gerði því ágætis skil í blogg-greininni sem ég vísa á. Ég hef, að því er virðist, náð mér fullkomlega. Allavegana líður mér alveg jafn vel og fyrir áfallið, sem eflaust breytti einhverju í mínu lífi. Ég kann enn betur að meta hversu yndislega kærustu ég á og líka vini og fjölskyldu.

Ég breytti líka aðeins líkamsræktinni minni í kjölfarið á heilablóðfallinu. Læknirinn minn skipaði mér að hætta að lyfta lóðum, allavegana í einhvern tíma og í stað þess að hanga í líkamsræktarsal, sem mér fannst fáránlega leiðinlegt – þá byrjaði ég í vor að hlaupa á næstum því hverjum degi og í sumar hljóp ég hálfmaraþon. Í haust byrjaði ég svo í CrossFit, sem er án efa skemmtilegasta líkamsrækt sem ég hef stundað (fyrir utan boltaíþróttir). Margfalt skemmtilegra en að lyfta í lyftingasal og ég er líka í betra formi en ég hef verið af lyftingum.

* * *

Við Margrét höfum líka ferðast ótrúlega mikið í ár. Við fórum í frábært skíðaferðalag með vinum okkar, í frábæra helgarferð til Madrídar, í mjööö skemmtilegar Íslandsheimsóknir, til San Francisco, Færeyja og svo í mánaðarlanga ferð til Indónesíu, sem var algjörlega frábær.

Svo höfum við endað þetta ár með vinum okkar og fjölskyldu heima á Íslandi. Dagskráin hefur verið ótrúlega þétt, en jafnframt fáránlega skemmtileg. Við höfum flakkað á milli matarboða, partía og fjölskylduboða á síðustu vikum og skemmt okkur frábærlega. Þrátt fyrir að við kunnum rosalega vel við okkur í Stokkhólmi þá er alltaf ótrúlega gaman að koma heim til Íslands og njóta lífsins hér. Næstu dagar verða líka jafn uppfullir af skemmtilegum hlutum. Næsta ár mun byrja með brúðkaupi og svo erum við búin að skipuleggja partí og matarboð alla daga fram að brottför aftur til Svíþjóðar.

Ég veit að alveg einsog í fyrra hefur þetta blogg legið á hakanum ansi mikið. Ég kann ágætlega við það þannig. Að ég geti gripið í það þegar mig langar til að skrifa um eitthvað skemmtilegt, en jafnframt þá er það ekki lengur svo að mér líði einsog ég verði að uppfæra það reglulega. Þannig er ágætt að hafa það.

* * *

Ég er mjög hress við þessi áramót. Mér líður ótrúlega vel í mínu starfi, ég á frábæra vini, fjölskyldu og langbestu kærustu í heimi. Það er allt sem skiptir máli.

Gleðilegt ár. Takk fyrir að lesa.

Guðmundur: Stóra smjörklípan

Guðmundur Gunnarsson: Stóra smjörklípan. – “En þessi málflutningur hefur haft þau áhrif, þegar hlustað er á umræður í heitu pottum sundlauganna, að þjóðin ræðir Icesave málið á kolvitlausum forsendum byggðum á óraunsærri óskhyggju og kemst þar af leiðandi að niðurstöðum, sem eru dæmdar til þess að valda svo miklum vonbrigðum þegar staðreyndir liggja fyrir og stóru dómarnir eru felldir af dómstólum götunnar og þá á að höggva á mann og annan. Þá er farið að og leitað að sökudólgum og þá njóta smjörklípumennirnir sín í skítkastinu. (InDefence)”

Bestu lögin og plöturnar 2009

Ég hef hlustað á fáránlega lítið af tónlist á þessu ári. Ég veit ekki almennilega hvað því veldur. En til að halda við áramótahefðinni á þessu bloggi þá ætla ég að reyna að hripa saman lista yfir uppáhaldsplöturnar mínar á árinu.

Einsog síðustu ár er hérna listi minn yfir uppáhaldsplötur mínar og lög á árinu 2009.

Bestu plöturnar 2009

  1. bruce-springsteen-working-on-a-dream-album-cover-picturejpg1Working on a Dream – Bruce Springsteen.  Hápunkturinn á þessu tónlistarári mínu var þegar við Margrét fórum á stórkostlega Bruce Springsteen tónleika á Stadion í Stokkhólmi.  Platan sem kom út á árinu var frábær og lögin sem hann gaf út í kjölfarið á henni (The Wrestler og Wrecking Ball) voru bæði í gríðarlegu uppáhaldi hjá mér.  Tónleikarnir voru ótrúlegir og þess vegna stendur þessi plata enn meira uppúr á árinu.  Besta lag: Outlaw Pete, sem var hreint stórkostlegt á tónleikunum.
  2. Veckatimest – Grizzly Bear.
  3. Journal for the Plague Lovers – Manic Street Preachers.  Besta platan frá Manics í langan tíma.
  4. The Blueprint 3 – Jay-Z
  5. 21st Century Breakdown – Green Day.  Við Margrét fórum líka á tónleika með Green Day í haust og þar tóku þeir stóran hluta af 21st century.  Hún er ekki jafn góð og American Idiot, en samt mjög góð.

Bestu lögin 2009.

  1. Empire State of Mind – Jay-Z og Alicia Keys. – Jay-Z er einfaldlega snillingur og þetta var besta lagið á annars góðri plötu.  Það mun sennilega ekkert lag frá 2009 verða jafnsterkt í minningunni og topplagið 2008, en þessi dúett þeirra Jay-Z og Aliciu Keys stóð uppúr.
  2. Wrecking Ball – Bruce Springsteen.  Þetta lag greip mig algjörlega í haust og ég spilaði það og spilaði svo oft að þegar ég fór að hugsa um uppáhaldslögin mín á árinu þá fannst mér þetta eiginlega verða að vera númer 1.
  3. 21 Guns – Green Day.
  4. Two Weeks – Grizzly Bear.
  5. I got a feeling – Black Eyed Peas.

Bestu tónleikarnir sem ég sá: Bruce Springsteen á Stadio í ágúst, Neil Young í júlí og Green Day í Globen í október.

Sjá lista frá 2008, 2007, 2006, 2005, 2004, 2003 og 2002.

Jólaveður í Stokkhólmi

Þetta er mynd tekin af mér rétt fyrir utan skrifstofuna okkar í gær. Ég var að bíða eftir Anders, sem vinnur með mér, þar sem við ætluðum að keyra til Sundbyberg til að tékka á stöðunni á nýja staðnum okkar.

Ég fer aldrei neitt hér á bíl, þannig að það var magnað að ég skyldi akkúrat vera í bíl í þessum snjóstormi.

Núna er Stokkhólmur ótrúlega jólaleg. Allt á kafi í snjó og verulega kalt, en veðrið í dag er samt þægilegt. Póstkortaveður, sem er fínt ef maður er bara vel klæddur. Ég er að klára flest vinnutengt hér í Stokkhólmi í dag en á morgun förum við Margrét heim til Íslands þar sem við ætlum að vera yfir jól og áramót.

Í dag þarf ég að klára jólagjafir handa starfsfólki og ýmis önnur mál. Í kvöld eigum við svo miða á 3D frumsýningu á Avatar, sem ég er verulega spenntur fyrir. Og á morgun er það svo flug heim.

Ég hata íþróttir

Okei, látum okkur sjá:

  • Chicago Bears, uppáhaldsliðið mitt í amerískum fótbolta eru núna búnir að vinna 5 leiki og tapa 8 á þessu tímabili. Þeir eru í næst-neðsta sæti í sínum riðli og munu ekki komast í úrslitakeppnina.
  • Chicago Bulls, uppáhalds-körfuboltaliðið mitt er einfaldlega hörmulegt þessa dagana. Þjálfarinn er slæmur brandari og hann verður sennilega rekinn á næstu dögum. Liðið hefur unnið 8 leiki og tapað 14. Þeir eru í neðsta sæti síns riðils. Í síðustu viku töpuðu þeir fyrir lélegasta liði deildarinnar.
  • Chicago Cubs, uppáhalds hafnaboltaliðið mitt komst ekki í úrslitakeppnina í sumar.
  • Liverpool, uppáhaldsfótboltaliðið mitt, er dottið úr Meistaradeildinni fyrir Fiorentina og Lyon. Þeir eru núna í sjöunda sæti í ensku deildinni með jafnmörg stig og Birmingham og einu stigi meira en Fulham. Þeir eru færri stigum frá botnsætinu en toppsætinu. Þeir hafa tapað fleiri leikjum en þeir hafa unnið á þessu tímabili í öllum keppnum. Þeir eru einnig dottnir útúr deildarbikarnum. Í gær sá ég þá labba yfir Arsenal og ég fór á jólahlaðborð vitandi það að þetta yrði auðveldur 3-0 sigur. Þvílíkir voru yfirburðirnir. En þeim tókst samt einhvern veginn að tapa 1-2. Þeir finna nýjar leiðir í hverri viku til að gera mig pirraðan.

Á svona dögum spyr maður sig af hverju í andskotanum maður fylgist með íþróttum.

Myndir frá Borneo

Jæja, þá er ég búinn að setja inn síðustu myndirnar úr Indónesíuferðinni okkar Margrétar.

Síðasti hlutinn er frá Borneo þar sem við heimsóttum meðal annars Órangútan apa. Einnig eru þarna nokkrar myndir frá Bali þar sem við eyddum síðustu dögunum í þessari frábæru ferð. Hérna er hægt að horfa á slide show með þessari myndaseríu.

Hérna eru allar myndirnar úr ferðinni.

Síðustu vikur…

Það er orðið svo langt síðan að ég bloggaði síðast að ég ætla að skrifa niður einhverja punkta. Margrét er að læra fyrir próf á bókasafni útí bæ svo ég er bara einn heima á sunnudagseftirmiðdegi.

* Við fórum á 2012 í gær. Það var furðuskemmtileg mynd. Mér hefur fundist allar myndirnar hans Roland Emmerich vera leiðinlegar, en þessi var bara nokkuð góð.
* Á Serrano erum við að vinna á fullu við stað númer 2, sem mun opna í lok janúar. Staðurinn er í Sundbyberg, sem er úthverfi, norðvestur af miðbæ Stokkhólms. Þessi staður verður mun stærri og glæsilegri en sá sem við rekum í dag. Fyrir það fyrsta þá verður þetta algjörlega okkar staður, en ekki staður sem við deilum með Subway einsog við gerum í dag. Alls er hann um 150 fermetrar og þarna verða sæti fyrir um 40 manns. Við fengum plássið afhent í síðustu viku og núna eru okkar iðnaðarmenn byrjaðir að vinna í bilinu. Ég tók myndir í síðustu viku, sem sýna stöðuna í dag. Þetta verður mjög spennandi á næstu vikum.
* Við höfum haft fulltaf fólki í heimsókn og síðast voru hérna Emil & Ella og svo Eva María á sama tíma. Það var mjög skemmtilegt. Emil og Ella voru hérna mjög stutt og auk þess að elda saman hérna heima, þá borðuðum við á Pet Sounds Bar með þeim öllum, sem er virkilega góður, lítill veitingastaður hérna á Söder. Svo fórum við á National Museum í fyrsta skipti með Evu Maríu.
* Um síðustu helgi eyddum við Margrét laugardeginum í að versla í miðbænum. Stokkhólmur er að lifna við með öllum jólaljósunum eftir að nóvember mánuður hafði verið einstaklega dimmur (það voru 14 tímar af sólskini allan mánuðinn). Við keyptum meðal annars jólaskraut og svo elduðum við kalkún samanum kvöldið sem tókst vel upp. Jólaskrautið er nokkuð merkilegur viðburður því þetta er í fyrsta skipti sem að mitt eigið heimili er skreytt jólaskrauti. Það er í raun mögnuð staðreynd miðað við aldur. Margrét er búinn að þrýsta á það að fá að spila jólalög síðan um miðjan nóvember og ég hef látið undan síðustu daga.
* Ég er kominn með nýja tölvu eftir að gamla tölvan mín dó. Þetta er 15″ Macbook Pro með möttum skjá. Ég ætla að skrifa um hana þegar ég er búinn að nota hana aðeins lengur, en fyrsta vikan með þessari tölvu hefur verið frábær. Þvílíkur munur á henni og þriggja ára gömlu vélinni minni.

Þetta er ágætt í bili. Ég ætla að reyna að vera aðeins duglegri við að uppfæra þetta blogg á næstu vikum.