Tekið niðrí miðbæ í Stokkhólms í dag.
Þessir ágætu aðilar kaupa semsagt keníska peninga, suður-afríska, tyrkneska og frá Márítíus. En ekki íslensku krónuna.
Jammmm. Göngum í ESB.
Lífið í Stokkhólmi er gott. Við Margrét erum búin að gera margt skemmtilegt, en ég hef einhvern veginn ekki haft kraft í að skrifa blogg eða email til vina heima.
Vinnan gengur fínt og opnunin í Vallingby hefur heppnast vel. Ég er smám saman að læra á það sem virkar og það sem virkar ekki í sænska viðskiptavini. Þótt að Svíar séu líkir Íslendingum, þá getur maður ekki notað alveg sömu aðferðir og við notuðum heima. En þetta kemur smám saman. Við erum meðal annars að fara í samstarf með stærstu líkamsræktarkeðjunni í Svíþjóð, sem ætti að stimpla okkur inn meðal fólks sem hugsar um heilsuna.
* * *
Við fórum á Oasis tónleika í síðustu vik í Globen íþróttahöllinni. Við keyptum miðana mjög seint og fengum því sæti á ekkert spes stað. Ég sá Oasis fyrir 8 árum í Chicago á mjög góðum tónleikum í Chicago Theatre, sem er um 3.000 manna leikhús sem hentaði frábærlega sem tónleikastaður. Ég var þar á fremsta bekk og þrátt fyrir að Noel hefði sungið nánast öll lögin, þá voru það frábærir tónleikar. Eini gallinn var alltof hröð útgáfa af Wonderwall.
Tónleikarnir í Globen voru ágætir. Ég sagði það eftir tónleikana að Noel væri eiginlega tragísk persóna. Hann samdi efni á tvær stórkostlegar plötur þegar hann var 27 og 28 ára en hefur aldrei náð slíkum hæðum aftur. Meira að segja B-hliðar á smáskífum (Talk Tonight, Masterplan) á þeim tíma voru stórkostleg lög, mun betri en það sem hann hefur samið síðustu ár.
Núna er hann í hljómsveit með bróður sínum, sem virðist engan áhuga hafa á þessu. Þessi sviðsframkoma Liams var sniðug fyrir 15 árum, en varla lengur í dag. Hann var alltaf að fara af sviðinu, virtist ekki leggja mikið á sig og stóð einsog álfur og starði á áhorferndur þess á milli. Auk þess sem hann virtist vera mjög ölvaður eða á öðrum vímugjöfum og ekkert skildist af því sem hann sagði. Það vantaði rosalega mikið aukinn kraft frá honum til að gera lögin betri.
Að því sögðu, þá tóku þeir Wonderwall, Don’t look back in anger, Masterplan, Morning Glory og Champagne Supernova. Og það er nóg fyrir mig. Þetta eru lög sem ég algjörlega dýrkaði sem unglingur og geri enn í dag. Oasis áttu ásamt Blur, Radiohead, Weezer, Sude, Pulp og einhverjum öðrum sveitum þær plötur sem að höfðu mest áhrif á mig á unglingsárunum. Ætli þeir verði því ekki alltaf í miklum metum hjá mér. Wonderwall er sennilega það lag sem ég hef hlustað oftast á, og Don’t Look back in anger er eitthvað besta gítarlag í heimi. Það að sjá þessi lög flutt af Oasis á sviði í annað skiptið á ævinni gerir kvöldið þess virði.
Þeir tóku líka nokkur lög af nýju plötunum og þar fannst mér I’m Outta Time vera hápunkturinn.
* * *
Ég hef svo borðað ofboðslega góðan mat, unnið mikið, séð tvær myndir í bíó (nýjustu Lukas Moodyson myndina Mammut – sem er góð og Benjamin Button, sem er la la) og skoðað óheyrilegt magn af íbúðum. Við höfum bara leiguíbúðina fram til loka apríl, þannig að við höfum flakkað mikið um Vasastan og Södermalm í leit að íbúð. Það er ekki auðvelt verk. Jú, og við djömmuðum með gestum frá Íslandi í kringum Stureplan, sem var mjög skemmtilegt.
Ég elska þessa borg.
Það er magnað að fylgjast með atburðunum á Íslandi.
Eitt fyndnasta við þetta allt eru viðbrögð margra hægrimanna, til dæmis flestra sem eru vinir mínir á Feisbúk. Þau eru á þá leið að víst að nú sé komin vinstri stjórn á Íslandi *þá* fari allt til fjandans. Alls konar klysjur um að nú hækki skattar og að einkaframtakið verði kramið og bla bla bla. Ég hef séð einhver 10 status skilaboð á Feisbúk um að fólk hyggist flytja til útlanda þar sem að vinstri stjórnin muni fara með allt til fjandans. Ekki ósvipað og [hér](http://fridjon.eyjan.is/2009/01/27/vont-fyrir-island-gott-fyrir-sjalfstaedisflokkinn/) og [hér](http://katrin.is/?t=athugasemdir&nid=7686).
Hvað í ósköpunum veldur þessum hroka hjá hægrimönnum, sem halda að þeirra flokkur sé einn hæfur til þess að stjórna? Yfir hverju geta þeir eiginlega montað sig í dag?
Áður fyrr voru aðallega tveir hlutir sem að hægri menn notuðu til þess að hræða fólk frá því að kjósa yfir sig vinstri stjórn á Íslandi. Fyrst það að hægrimönnum væru einum treystandi til að sjá um ríkisfjármálin. Þessa vitleysu hefur nýhættum forseta Bandaríkjanna og svo Sjálfstæðismönnum hérna heima svo sannarlega tekist að afsanna. Svo var það glundroðakenningin um að stjórn væri bara starfhæf ef að Sjálfstæðisflokkurinn væri við völd. Þetta hafa Sjálfstæðismenn í Reykjavík afsannað með stórkostlegum glæsibrag á þessu kjörtímabili.
Þannig að ég segi við Sjálfstæðisflokks-elskandi vini mína: Þið hafið ekki efni á þessu. Ykkar flokkur og ykkar stefna kom okkur í þá stöðu, sem við erum í. Það má vel vera að vinstri stjórn eigi eftir að lenda í vandræðum, en hún getur varla klúðrað málunum á verri hátt en sú sem er að fara frá.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur stjórnað öllu á Íslandi frá því að ég fermdist. Það er löngu kominn tími á að aðrir fái að stjórna landinu.
Það eru sennilega einhver þrjú ár síðan að við Emil byrjuðum að ræða af alvöru þann möguleika að opna Serrano stað í útlöndum. Þetta hafði verið draumur okkar frá stofnun, en við byrjuðum ekki að ræða það af alvöru fyrr en við höfðum rekið staðinn á Íslandi í nokkurn tíma. Þessar pælingar byrjuðu sem símtöl á kvöldin þar sem við ræddum hlutina fram og tilbaka. Einhverjar óljósar hugmyndir um að víst að Íslendingar væru að fíla Serrano, hvers vegna ættu ekki aðrir Evrópubúar að gera það líka?
Eflaust hafa útrásarvíkingar, sem þá voru þjóðhetjur heima á Íslandi, haft þau áhrif á okkur að okkur fannst útrás vera möguleg, en ekki fjarlægur draumur. Kannski getum við þakkað þeim að við höfðum meiri kjark til þess að láta af þessu verða.
Ég man ekki alveg hvenær Svíþjóð varð fyrir valinu. Ég hafði ekki verið neitt sérstaklega spenntur fyrir Svíþjóð alveg þangað til að ég kom fyrst til Stokkhólms. Ég varð strax ástfanginn af borginni og varð sannfærður um að þetta væri staður sem ég gæti hugsað mér að búa. Ég var einnig í miklum samskiptum við nokkra sænska birgja í gömlu vinnunni minni og þar á meðal var einn kontaktinn, sem talaði mikið við mig um það hversu mikil tækifæri hann taldi vera fyrir mexíkóskan mat í Svíþjóð. Þannig að smám saman var stefnan tekin markvisst á Stokkhólm.
* * *
Raunveruleg undirbúningsvinna fyrir opnun hefur tekið gríðarlegan tíma og sennilega meirihluta af mínum vinnutíma í næstum því eitt ár. Það má segja að lokaákvörðun hafi verið tekin í San Francisco ferð okkar Emils síðasta janúar og síðan þá hef ég unnið í þessu á fullu. Við fengum til liðs við okkur sænskt ráðgjafafyrirtæki til þess að finna staðsetningar fyrir staðina okkar. Sú vinna er enn í gangi því planið er að opna fleiri en einn stað.
Við fengum plássið í Vallingby einhvern tímann í sumar. Þegar það komst á hreint þá jókst vinnan umtalsvert. Standardinn okkar fyrir opnun hérna í Svíþjóð er auðvitað allt annar en hann var þegar við opnuðum í Kringlunni fyrir 6 árum. Allt markaðs- og þjálfunarefni hefur verið þýtt á sænsku, við höfum endurbætt matseðilinn og aukið við úrval, sem og lagað nokkra hluti í núverandi réttum og endurbætt markaðsefni. Með því að breyta matseðli og markaðsefni og á sama tíma vera að opna í nýju landi, þá jukum við pressuna og vinnuna við opnunina. En á móti þá ætti Serrano konseptið að vera þéttara og betra heldur en það var áður.
Við byrjuðum að smíða staðinn í nóvember. Vegna gjaldeyrismála var erfitt fyrir okkur að klára málin hérna úti. Við létum smíða afgreiðsluborðið heima og senda það út og það sama má segja um slatta af tækjum og öðru hlutum. Mestallt af smíðavinnunni var klárað í desember rétt eftir að ég fór heim í jólafrí.
Eftir áramót kom ég út ásamt Söndru og Elínborgu, sem eru báðar vanar af Serrano heima á Íslandi. Sandra er núna veitingastjórinn í Vallingby og Elínborg er í eldhúsinu. Það að hafa þær þarna auðveldar mér mjög lífið því þær þekkja það manna best hvernig á að reka Serrano stað. Fyrstu vikuna sem ég var hérna úti héldum við ráðstefnu þar sem við kynntum fyrirtækið og réðum í kjölfarið starfsfólk, sem byrjaði svo í þjálfun. Vikuna fyrir opnun kom svo Emil og auk þess kom Guðni yfirkokkur. Hann þurfti að breyta fulltaf hlutum þar sem að hráefnið er að mörgu leyti ólíkt því hráefni sem við notum heima.
* * *
Síðustu dagar fyrir opnun voru einsog vanalega fullir af stressi. Við höfðum ætlað að opna síðasta miðvikudag, en á mánudaginn var mér ljóst að það væri ekki hægt og því var opnuninni frestað um einn dag. Þrátt fyrir það var það ansi margt sem kláraðist ekki fyrr en á síðustu metrunum. Gosvélar og goskælar voru ekki sett upp fyrr en síðasta daginn og kassakerfið var ekki komið í lag fyrr en að kúnnarnir voru komnir í biðröð fyrir utan.
Um fjögur leytið daginn fyrir opnun tókum við loka test á staðnum. Við elduðum allan matinn og leyfðum starfsfólkinu að afgreiða einsog um alvöru viðskipti væri að ræða. Það er skemmst frá því að segja að ég var alls ekki sáttur við lokatestið. Tortillurnar, sem við vorum með, voru ekki nógu góðar og auk þess var kjúklingurinn skrítinn. Þá tók við nokkra klukkutíma stress. Mér tókst að redda nýjum tortillum og ég, Margrét og Guðni kokkur enduðum á að fara með taxa heillanga vegalengd að heildsölubúð, sem var enn opinn klukkan 9 um kvöldið. Þar tókst okkur að kaupa nokkra hluti í stað þeirra sem við vorum ekki sátt við. Það fór svo að við Guðni vorum ekki orðnir sáttir við kjúklinginn fyrr en um klukkutíma áður en að staðurinn opnaði á fimmtudagsmorgninum.
Við vorum búin að auglýsa það að 300 fyrstu kúnnarnir myndu fá ókeypir burrito og það var því gaman að sjá að fyrir klukkan 11 var strax komin biðröð fyrir utan staðinn. Allt gekk svo ótrúlega vel í opnuninni og fyrsta helgin hefur líka gengið vel. Á bakvið tjöldin hafa auðvitað komið upp ýmis vandamál, en ekkert sem að kúnninn ætti að hafa tekið eftir.
Þannig að núna er opnunin búin og við getum því farið að einbeita okkur að því hvernig má bæta staðinn og auka viðskiptin á næstu vikum. Það verður nóg í gangi á næstu vikum og mánuðum, en byrjunin lofar allavegana góðu.
Hérna er ég klukkan 4 í dag að prófa fyrsta sænska Serrano burrito-inn í Vallingby. Við vorum að taka prufukeyrslu á staðnum fyrir starfsfólkið.
Við Margrét vorum að koma heim rétt í þessu, en það er enn fólk frá okkur útí Vallingby að leggja lokahönd á undirbúninginn fyrir opnunina á morgun.
Ég er hins vegar of þreyttur til að gera meira en að setja inn myndir.
Ég mun vonandi á morgun eða föstudag koma með lengri lýsingu á því hvernig þetta gerðist allt saman.
Svona leit framhliðin á staðnum okkar út í morgun. Skiltin komin upp og allt lítur vel út.
Ég veit að ég ætti að blogga og láta alla vita af því hvernig gengur, en ég hef bara ekki fundið tímann né kraftinn. Ég er á leiðinni á djammið, svo ég læt myndirnar nægja.
Ó, MTV!
Ef einhver hefur nokkurn tímann efast um að hjá raunveruleikasjónvarps-deildinni hjá MTV vinni eitthvað nema snillingar, þá geta menn hætt að efast núna. Nýjasta snilldin á MTV er nefnilega [A Double Shot At Love](http://www.youtube.com/watch?v=hqmfDe8dqLU).
Þetta er framhald á þætti þar sem hin tvíkynhneigða Tila Tequila valdi úr hópi 10 lesbía og 10 straight karlmanna. Mig minnir að hún hafi valið karlmann í fyrri seríunni, en í þeirri seinni (þar sem að fyrra sambandið entist ekki eina viku) valdi hún lesbíu, sem hafnaði henni. Því virðist hún hafa gefist upp á þessari (ótrúlega pottþéttu) leið til að finna ástina.
Hvernig toppum við þetta, hafa menn á MTV þá eflaust spurt sig?
Jú, með því að fá tvíkynhneigða TVÍBURA, sem vinna líka fyrir sér sem SUNDFATAMÓDEL til að velja úr hópi 10 karlmanna og 10 lesbía. Hvernig getur svona sjónvarpsþáttur klikkað? Og hvernig getur maður, sem hefur ítrekað lýst ástfóstri sínu á ömurlegum raunveruleikaþáttum, sleppt því að horfa á þetta? Ég veit ekki. Því fór ég á iTunes og keypti seríuna. Það eru aðeins búnir 3 þættir en þeir lofa góðu.
Stórkostlegt rusl.
Ég er kominn til Stokkhólms. Hér er kalt. Skítfokkingkalt! En ég vissi það svo sem að þessir mánuðir yrðu kaldir. Ég er alveg til í að færa þá fórn til þess að fá almennilega sumarmáuði.
Er búinn að vinna einsog geðsjúklingur og sárvorkenni þeim sem eru í email sambandi við mig þar sem ég er búinn að dæla út verkefnum í allar áttir síðustu tvo daga. Í dag fór ég til Vallingby þar sem staðurinn okkar er staðsettur og tók þessa mynd af staðnum með “teaser” merkingunum. Allt lítur þokkalega út og við ættum að geta opnað í kringum 21.jan einsog við áætluðum.
* * *
Vinsældir mínar á Blogg Gáttinni hafa hrapað. Í fyrra var ég í 14.sæti, en í ár er ég kominn niður í 58. sæti. Þetta er gríðarlegt áfall fyrir egóið, en ég get varla búst við miklu, þar sem að færslum á þessu bloggi hefur fækkað um rúmlega helming á milli ári, aðallega á seinni hluta ársins. Kreppa segja einhverjir. Ég kenni kærustunni og meiri skemmtilegheitum um bloggleysið. Mér fannst miklu skemmtilegra að blogga um það hversu lífið var erfitt og stelpur ömurlegar heldur en allt þetta skemmtilega. Því fækkaði færslunum. En núna þar sem ég er í öðru landi en nánast allir mínir vinir þá mun bloggunum eflaust fjölga.
Annars er athyglisvert að Liverpool bloggið er bara í 48.sæt á þessum lista þrátt fyrir að vera klárlega meðal 10 mest lesnu blogga á landinu. Það stafar aðallega af því að nánast allir sem lesa þá síðu fara beint inná slóðina, en ekki í gegnum Blogg Gáttina og að þar eru tiltölulega fáar uppfærslur á meðan að umræðan við hverja uppfærslu er. Vinsælustu síðurnar á Blogg Gáttinni eru allar síður sem eru uppfærðar mjööög oft í viku.
En allavegana, ég axla fulla ábyrgð á þessu vinsældahruni. Hvernig ég axla þá ábyrgð veit ég ekki.
* * *
Annars var MacWorld í gær. Ólíkt Macworld 2006 (þar sem ég var sleeeefandi yfir iPhone) og 2007 (þar sem ég var slefandi yfir Apple TV), þá var eiginlega ekki neitt rosalega spennandi kynnt í gær. Phil Schiller var þarna í stað Steve Jobs og hann kynnti lítið spennó. Jú, nú selur iTunes lög án höfundarréttarvarna (sem mun væntanlega þýða að ég nota iTunes meira) og svo kynnti hann 17 tommu Macbook, sem ég hef nákvæmlega núll áhuga á, enda burðast ég með tölvuna með mér allan daginn og hef ekki áhuga á varanlegri vöðvabólgu í öxlunum.
Hann kynnti þó nýja útgáfu af iWork, sem inniheldur m.a. besta forrit í heimi, Keynote. Ég var að kaupa það og ákvað að uppfæra kynninguna mína fyrir morgundaginn með nýjum effectum, sem eru rosalega smart. Ef ég fæ ekki einhver “úúú” og “aaaah” þá verð ég svekktur. Svo verður iLife uppfært í lok janúar og þar virkar iPhoto svo spennó að mig langar næstum því að skipta aftur úr Aperture.
* * *
Áramótin mín voru fáránlega skemmtileg. Ég var hjá bróður mínum í mat, skaupi og flugeldum. Eftir miðnætti héldum við félagarnir á Njálsgötunni svo ótrúlega skemmtilegt partí. Þar var ótrúlega mikið af skemmtilegu fólki og það var spilað á gítar, dansað uppá borðum og stólum og drukkið langt fram eftir morgni. Ég rak síðasta fólkið út rétt fyrir átta um morguninn, sem var gríðarlega hressandi. Svona á að byrja nýtt ár.
Samkvæmt þessari frétt þá er mín gamla heimaborg Caracas sú borg í heiminum þar sem flest morð eru framin. Í fyrra voru framin þar 130 morð á hverja 100.000 íbúa. Sú tala er með hreinum ólíkindum. Það jafngildir því að á Íslandi væru framin á hverju ári um 420 morð. Bara í desember voru framin 510 morð í borginni.
Þetta er enn eitt dæmið um hina afleitu stjórn Hugo Chavez, sem nú hefur verið við völd í 10 ár.
2008 er búið að vera besta ár ævi minnar.
Þrátt fyrir allt sem hefur gerst í haust á Íslandi þá breytir það því ekki að árið markaðist fyrst og fremst af því skemmtilega fólki, sem ég umgekkst og öllu því skemmtilega sem gerði. Ég er eflaust einn hinna heppnu. Ég seldi íbúðina mína í vor á góðu verði og ég bý núna í leiguíbúð með tveim vinum mínum og skulda því nánast ekki neitt. En maður minnist áranna sennilega ekki vegna efnahagsástands, heldur fyrst og fremst vegna fólksins sem var í kringum mann. Mestu góðærisárin með öllu fylleríinu voru ekki mín bestu ár og ég fékk lítið úr því að eiga fína íbúð og nýjan bíl. En núna þegar ég keyri um á 6 ára gömlum bíl og bý í leiguíbúð með öðrum, en umgengst skemmtilegt fólk og á stórkostlega kærustu, þá líður mér miklu betur en áður.
* * *
Árið hefur gengið vel í vinnunni. Emil, sem á Serrano með mér, byrjaði að vinna við staðinn í fullu starfi í upphafi ársins og það gerði mér kleift að einbeita mér að því að setja Serrano upp í Svíþjóð. Við fengum fjármögnun á það verkefni í mars og síðan þá höfum við verið að vinna með sænsku ráðgjafafyrirtæki til að finna staðsetningu fyrir fyrsta staðinn. Sú staðsetning fannst í sumar og núna er staðan sú að við ætlum að opna fyrsta Serrano staðinn í Svíþjóð 21.janúar næstkomandi.
Ég hef verið mikið í Svíþjóð á árinu til að undirbúa staðinn. Er búinn að semja við birgja, banka og alla þá aðila sem við þurfum að vinna með á staðnum. Erum einnig búin að ráða rekstrarstjóra, sem byrjar næsta vor og í byrjun janúar munum við taka viðtöl við starfsfólk fyrir staðinn. Ég er með ágæta íbúð í Stokkhólmi á leigu, en fljótlega á næsta ári þarf ég að finna nýja íbúð.
Heima hefur Serrano gengið vel og veltan tvöfaldast frá því árið 2007. Við opnuðum tvo staði á árinu, á N1 Bíldshöfða og í Dalshrauni í Hafnarfirði.
* * *
Ég ferðaðist talsvert á árinu, mun meira en í fyrra. Í byrjun ársins fór ég ásamt nokkrum vinum mínum í frábæra ferð til Liverpool þar sem við sáum mína menn vinna Sunderland. Stuttu seinna fór ég ásamt Emil til San Francisco, þar sem við heimsóttum fæðingarstað þeirrar típu af burrito, sem við seljum á Serrano. Þar smökkuðum við mikið af mat og undirbjuggum Svíþjóðar planið.
Í maí og júní ferðaðist ég svo um [Mið-Austurlönd](http://eoe.is/ferdalog/#mid-austur-2008) í algjörlega frábærri ferð. Ég fór til Líbanon, Sýrlands, Jórdaníu, Ísrael og Palestínu og upplifiði hluti sem ég hafði aldrei upplifað áður. Ég sá Petra, Jerúsalem, Damaskus, Palmyra og Beirút. Ég kynntist ótrúlegu fólki, borðaði stórkostlegan mat, upplifði nýja siði og kom aftur breyttur maður og ótrúlega hamingjusamur. Mér fannst ég vera sáttur við lífið og hvert ég stefndi.
Og stuttu seinna byrjaði ég með kærustunni minni, Margréti. Það er rúmt ár síðan við kynntumst í fyrsta skipti og við höfðum hist öðru hvoru í gegnum sameiginlega vini, en við byrjuðum ekki saman fyrr en ég bauð henni útað borða í júlí. Fram að því hafði sumarið verið stórkostlegt með frábærri útilegu í Úthlíð sem hápunkt. Og restin af sumrinu var líka lygilega skemmtileg. Þetta var án nokkurs efa besta og skemmtilegasta sumar ævi minnar. Allar helgar gerði ég eitthvað skemmtilegt. Ég fór á ótrúlega skemmtilega Þjóðhátíð, í skemmtilegar sumarbústaðarferðir og útilegur og svo fór ég í brúðkaup hjá gamla herbergisfélaga mínum úr Northwestern nálægt Boston í lok sumars.
* * *
Seinni part ársins hef ég flakkað mikið á milli Reykjavíkur og Stokkhólms. Í ágúst flutti ég úr íbúðinni minni við Hagamel, sem ég hafði átt í 6 ár. Þar með má segja að ákveðnu tímabili í mínu lífi hafi lokið. Í þessari íbúð var ég búinn að upplifa ansi margt. Ég valdi hana með fyrrverandi kærustu minni, svo hættum við saman áður en ég flutti inn. Á Hagamelnum hef ég búið síðustu 6 ár, haldið öll þessi partí og verið í öllum þessum samböndum, sem ekki hafa gengið upp. Undir það síðasta var mér hætt að þykja vænt um íbúðina, ég var hættur að laga hluti sem biluðu og ég vildi bara komast í burtu. Þegar ég flutti út þá byrjaði ég að leigja með tveim vinum mínum í miðbæ Reykjavíkur. Það hefur verið skemmtilegt, enda frábært að vera nánast alltaf umkringdur fólki eftir að hafa búið svona lengi einn.
Í janúar mun ég svo flytja til Stokkhólms ásamt kærustunni minni. Hún ætlar að leita að vinnu þangað til í haust þegar hún fer í háskóla, en ég ætla að reyna að koma af stað fyrsta Serrano staðnum. Ég hreinlega get ekki beðið. 2008 er búið að vera stórkostlegt ár og ég er gríðarlega bjartsýnn á að næsta ár verði líka gott. Ég veit að þetta blogg hefur ekki verið burðugt fyrir utan kannski ferðasöguna, en ég vona að það batni á næsta ári. Mér líður ótrúlega vel við þessi áramót og bíð spenntur eftir næsta ári.
Gleðilegt ár. Takk fyrir að lesa.