Suð-Austur Asíuferð 1: Phát Thai

Úffff, Bangkok maður!

Ég hef upplifað margar stórborgir, en samt þá býr mann ekkert almennilega undir geðveikina í Bangkok. Öll þessi fáránlega umferð, endalausu læti og endalaust áreiti gera það að verkum að maður er hálf uppgefinn þegar maður skríður inná hótelherbergi í lok dags.

Ferðalagið hingað til Tælands var langt, en samt bærilegt. Ég byrjaði ferðalagið á miðvikudagsmorgun með því að labba með bakpokann minn útá Hótel Sögu rétt fyrir klukkan 5. Og því lauk þegar ég tékkaði mig inná hótel í Bangkok klukkan 21 á fimmtudagskvöldinu. Semsagt 31 tímar á ferðalagi og 7 klukkutíma tímamismunur. Ég stoppaði í 8 tíma í London og ákvað að eyða þeim tíma bara í rólegheitunum á Heathrow, þar sem ég lenti á Stansted og þurfti að koma mér yfir á Heathrow. Eftir þá bið tók svo við flug með Emirates, fyrst til Dubai og þaðan til Bangkok.

Þrátt fyrir að Emirates flugfélagið hafi stutt bjánalið einsog Chelsea og Arsenal, þá var ég fljótur að fyrirgefa þeim það þar sem þeir voru með sjónvarp í sætinu þar sem ég gat valið um einhverjar 300 bíómyndir “on-demand”. Það var snilld og náði ég því að horfa á “Inconvenient Truth” – sem er snilld og “Thank you for smoking” – sem var ekki svo mikil snilld. Eini gallinn á fluginu var sá að dúbaísk börn virðast vera þeim kosti gædd að geta grátið stanslaust í 6 tíma og 15 mínútur, sem er akkúrat sá tími sem að fyrra flugið tók.

Hérna í Bangkok gisti ég á litlu “hóteli” á frægustu bakpokaferðalanga-götu í heimi, *Khao San*. Þessi gata er auðvitað kapítuli útaf fyrir sig. Hérna eru samankomin hundruðir af bakpokaferðalöngum, sirka 2.000 götusalar – sem selja allt frá Phat Thai (ég hef verið einstaklega duglegur við að styrkja þá sölumenn) til sólgleraugna og svo um 100 Túk-Túk bílstjórar. Úr þessu verður svo til alveg yndislega hallærisleg blanda, sem ég held að ég þoli ekki í mikið meira en þá fjóra daga, sem ég ætla mér að vera hérna.

Ég er ekki búinn að gera mikið hérna í Bangkok. Ferðalagið og tímamunurinn situr ennþá eitthvað pínu í mér, allavegana hef ég sofið í 14 og 15 tíma fyrstu tvær næturnar hérna. Þó er ég nokkuð viss um að það er ekki þægilegu rúmi eða rólegu umhverfi að þakka. Gærdeginum eyddi ég á labbi um borgina og reyndi aðeins að fá tilfinningu fyrir lífinu hérna í nágrenninu. Það að fara í göngutúr í Bangkok er þó ekki auðvelt. Fyrir það fyrsta er mengunin sennielga nóg til að fá lungnakrabba innan nokkura daga. Auk þess þá er umferðin stórhættuleg. Nú hef ég upplifað umferðina í borgum einsog Buenos Aires, Istanbúl og Mexíkóborg þar sem menn virðast ekki hafa fyrir því að fara í ökuskóla. En Bangkok nær að toppa þessar borgir, mest vegna fjölbreytileika ökutækja. Því auk hefðbundinna bíla eru hér milljón mótorhjól og eitthvað annað eins af Túk-túk töxum, sem geta sveigt sér í allar þær mögulegu eyður, sem venjulegir bílar skilja eftir sig.

Bætum svo því við að hérna eru nánast aldrei umferðarljós við göngubrautir og því verður þetta háspennuleikur í hvert skipti, sem maður þarf að labba yfir götu. Bangkok búar virðast ekkert kippa sér upp við þetta – en ég er ennþá að venjast þessu. Á labbi niðrí Kínahverfið var stoltið mitt þó aðeins sært þegar að gömul kona leit á mig, þegar ég hafði staðið einsog hræddur álfur við götuna í sirka mínútu, og stökk svo útá götu beint fyrir leigubíl sem stoppaði fyrir henni. Ég hugsaði með mér að ef hún væri ekki hrædd við að deyja, þá væri ég það ekki heldur og stökk á eftir henni en hélt mig þó hægra megin við hana svo að hún myndi fá mesta skellinn ef að brjálaður Túk-túk bílstjóri myndi keyra okkur niður.

Þessir túk-túk bílstjórar eru algjörar dúllur, því þeir taka hverja handahreyfingu sem viljayfirlýsingu um að maður vilji fá far með þeim. Hérna þarf ekki að kalla á þá, það er nóg einfaldlega að taka upp kort eða stoppa og horfa í kringum sig í 10 sekúndur. Í gær var ég að glápa á einhverja sæta stelpu, sem labbaði í veg fyrir Túk-túk bílstjóra, sem varð um leið sannfærður um að ég væri að horfa á hann og bauð mér því undireins far á afar góðu tilboðsverði.

Ég kíkti svo útá djammið hérna á *Khao San* í gærkvöldi. Kynntist stelpu frá Hollandi og strák frá Argentínu og sátum við saman á *Center Khao San* barnum. Seinna um kvöldið hittum við svo þrjár sænskar stelpur, sem við fórum með á dansklúbb hér nálægt. Þökk sé hinum gríðarlega óvinsæla forsætisráðherra Tælands, Thaksin Shinawatra, (sem ætlaði einu sinni að kaupa Liverpool FC), þá mega barir ekki vera opnir til lengur en 1, þannig að ég hafði ekki drukkið nema einhverja 10 Singha bjóra þegar að tónlistin stoppaði og allt var búið.

Deginum í dag hef ég svo eytt í Kínahverfinu í Bangkok. Kínahverfið er einsog önnur hverfi hérna í miðborg Bangkok, nema að það er bara *aðeins* geðveikara – og götumaturinn *aðeins* ógirnilegri. Þetta var þó skemmtilegt hverfi ég ég keypti mér m.a. úr og gæða sólgleraugu fyrir samtals 350 krónur.

Ég ætla að vera hérna í Bangkok fram á þriðjudagsmorgun. Á morgun er von á Friðrik og Thelmu (sem eru í brúðkaupsferð) hingað til Bangkok og ætlum við að hittast á mánudagskvöld í kvöldmat. Ég ætla að eyða morgundeginum í að skoða musterin hérna í Bangkok og svo stefni ég að fara á þriðjudaginn áleiðis til Siem Reap í Kambódíu, sem verða grunnbúðir fyrir ferðir til *Angkor Wat* musteranna.

(p.s. getur einhver snjall einstaklingur sagt mér af hverju forsíðan á eoe.is birtist með tælenskum stöfum, en ekki einstakar undirsíður)?

*Skrifað í Bangkok, Tælandi klukkan 19.05*

Lokaundirbúningur

Úfff, ég trúi því varla að ég sé að fara út í fyrramálið. Ég er ekki einu sinni byrjaður að pakka.

Síðustu dagar hafa verið skemmtilegir, en líka fullir af stressi. Hápunkturinn var án efa brúðkaup Friðriks og Thelmu, sem var haldið á laugardaginn. Fyrir það hafði ég auk vinnustress verið að stressa mig á því að búa til myndasýningu fyrir brúðkaupið, sem og að semja ræðu.

Brúðkaupið var í alla staði frábært. Ég skemmti mér ótrúlega vel og allt heppnaðist frábærlega. Ég hélt ræðu og svo vorum við æskuvinirnir með myndasýningu, þar sem við sýndum myndir frá því þegar við vorum litlir. Vá hvað þetta var skemmtilegt.


Annars hafa síðustu dagar bara farið í að kára nokkur vinnutengd mál á síðustu stundu. Er í raun ekkert búinn að skipuleggja ferðina mína. Veit bara að ég ætla að pakka myndavélum og smá fötum í kvöld og kaupa svo bara það sem ég þarf þegar ég kem á staðinn og finn á mér hvað ég þarf. Síðast tók ég alltof mikið af dóti í bakpokann og þurfti að senda dót heim nánast strax.

Ég á svo flug í fyrramálið til London og svo um kvöldið með Emirates til Dubai og þaðan til Bangkok. Fer væntanlega að heiman klukkan 4.45 miðvikudaginn 12.september og ef allt gengur að óskum þá lendi ég í Bangkok klukkan 18.30 þann 13.september að staðartíma. Þetta er massíft ferðalag. Er búinn að panta mér semi-gott hótel á Khao San þar sem ég nenni ekki að hlusta á hrjótandi Þjóðverja fyrstu nóttina. Vil getað náð úr mér mestu þreytunni með svefni i almennilegu herbergi fyrstu nóttina. Fyrir utann það er ekkert planað nema að ég hef grófa hugmynd um að byrja ferðina með því að fikra mig til Kambódíu.

En allavegana, ég stefni á að skrifa reglulega frá þessari ferð minni. Vonandi getur það verið áhugavert fyrir einhverja. Stefni líka á að uppfæra Flickr síðuna með myndum.

Fyrir vini og vandamenn, endilega **sendið mér póst** 🙂

Dansmyndband

Einhvern tímann fyrir nokkrum árum bloggaði ég um myndband þar sem strákur dansaði á þekktum stöðum alls staðar í heiminum.

Jæja, hann er búinn að gera annað myndband, sem er alveg jafnmikil snilld og það fyrra. Hann byrjar það á einum af mínum uppáhaldsstöðum í heiminum, Saltvötnunum í Uyuni í Bólivíu.

Allavegana, ég kemst í gott skap við að horfa á þetta

What's so funny…?

Ég hef sennilega aldrei talað um aðdáun mína á Elvis Costello hér á þessari síðu. Fyrir einhverjum 10 árum kynnti Eunice vinkona mín mig fyrir honum þegar við sátum saman útá svölum á hótelinu okkar á eyjunni Margarítu og hún spilaði fyrir mig “I want you”. Auðvitað vissi ég hver Costello var, en áður en hún spilaði lagið fyrir mig, þá hafði ég ekki mikið hlustað á hann.

Núna 10 árum síðar er hann einn af mínum uppáhalds-tónlistarmönnum. En ég þekki ansi fáa, sem deila aðdáun minni á honum. Það er auðvitað synd. Ég var ákveðinn í að skella inn lagi með honum og velti því aðeins fyrir mér hvað ég ætti að velja. Í raun komu 3 uppáhaldslögin mín með Costello til greina: “(What’s So Funny ‘Bout) Peace Love & Understanding”, “I Want You” og “Party Girl”.

Ég fann svo á Youtube vídeó í góðum gæðum með “(What’s So Funny ‘Bout) Peace Love & Understanding”. Þar sem það lag er gjörsamlega æðislegt og myndbandið er klassískt Costello moment, þá set ég það hérna inn. Njótið!

Í framhaldinu mæli ég svo með Armed Forces fyrir Costello byrjendur. Hún er algjörlega frábær.

Hryllileg djammtónlist

Ég fór á djammið í gær. Skemmti mér virkilega vel, *þrátt* fyrir gæði íslenskra skemmtistaða. Ég veit að ég er búinn að pirra mig á þessu oft áður, en ég bara verð. Kvöldið niðrí miðbæ hófst á Hressó þar sem ég stoppaði í tvær mínútur. Þar var hljómsveit að spila og einhver fullur gamall karl í jakkafötum að tapa sér fyrir framan hana með hálf einkennilegum danssporum. Ég ákvað að þetta væri ekki málið.

Fór því með mínum hóp upp Laugaveginn þar sem við enduðum inná Sólon. Þar var fínt. DJ-inn spilaði m.a. Barfly, sem er náttúrulega lag ársins og ótrúlega skemmtilegt lag til að hlusta á á djamminu. En aðrir aðilar úr hópnum höfðu farið á Óliver og ákváðum við því að hittast þar. Okkur var hleypt framfyrir röð og eftir stutta stund vorum við komin á dansgólfið.

Hvar á ég að byrja?

Í fyrsta lagi var ég ekki búinn að vera lengi á dansgólfinu þegar ég var skallaður af einhverjum haug. Samkvæmt þeim, sem voru að dansa með mér þá var gaurinn laminn svo fast í hausinn að hausinn hans skallaði ennið á mér. Það þótti mér ekki góð byrjun.

Svo kom eitthvað lag, sem ég fílaði og ég reyndi að dansa með hópnum. Það gekk alveg fáránlega illa vegna þess að það voru svona 300 manns á þessu örsmáa dansgófli. Ég sá í raun ekki um danshreyfingarnar, heldur réðust þær af fólkinu, sem rakst í mig úr öllum áttum. Sem hefði verið í lagi ef…

… DJ-inn hefði ekki fengið einhverja skringilega löngun til að spila asnaleg lög. Eftir 2-3 sæmilega heilbrigð lög, sem hægt var að dansa við, þá byrjaði hann á íslenskri syrpu, sem byrjaði á Fjólublátt ljós við barinn (er það ekki með Helgu Möller). Ég snarstoppaði, en sá að einhver sæt stelpa uppá sviði söng af innlifun við lagið. Ég hugsaði með mér að hún hlyti að vera eldri en hún sýndist. Þegar þetta “skemmtilega” lag var búið tók svo við “Diskó Friskó”. Það virðist vera óskráð regla að það lag sé spilað hvert einasta kvöld inná þessum stað.

Þegar Diskó Friskó byrjaði ákvað ég að nóg væri komið og hvatti fólk til að skipta um stað. Við ákváðum að fara á næsta stað, sem er Barinn. Fórum þar strax uppá næstu hæð þar sem ég fór með einum strák á barinn. Stökk síðan uppá klósett og ætlaði svo niður á aðra hæð til að dansa. En, þegar ég var á leiðinni niður heyrði ég að DJ-inn var að spila…

…**SÚPERMANN MEÐ LADDA**!! Í fokking alvöru talað, af hverju er þetta lag spilað á skemmtistað fyrir fullorðið fólk? Getur einhver sagt mér það? Það getur enginn heilvita einstaklingur fílað það að dansa við þetta. Einu aðstæðurnar, sem ég get ímyndað mér að fólk fíli þetta er þegar það er gjörsamlega ofurölvi og finnst æðislega sniðugt og flippað að vera að dansa við Súpermannn. Ég var hins vegar ekki ofurölvi, heldur bara temmilegur þannig að ég neitaði að dansa.

Næsta lag var eitthvað Michael Jackson lag, þannig að ég fór á dansgólfið. Ég þarf nefnilega actually að hafa tónlist til að dansa við. En þetta stóð ekki lengi yfir, því næsta lag á eftir Jackson var…

…**HIPP-HOPP HALLI**! Ég ákvað að fara út.

Fórum næst á Vegamót, sem var hápunktur kvöldsins. Sá staður virðist leggja metnað í að hafa almennilega tónlist, en ekki vera með eitthvað leiðinda flipp eða sniðugheit einsog aðrir staðir. Fengum strax borð við innganginn og skemmtum okkur vel þar. En málið með Vegamót er náttúrulega einsog alþjóð veit að þar er minnsta dansgólf norðan Alpafjalla.

Ólíver og Barinn geta alveg verið fínir staðir. En þá verða menn bara að skilja að það er ekki fyndið né skemmtilegt að spila Súpermann eða Hipp-Hopp Halla. Það er einfaldlega leiðinlegt, fælir fólk af dansgólfinu (einsog gerðist greinliega á Barnum) og eina fólkið, sem fílar þetta er svo ofurölvi að það myndi finnast það æðislega sniðugt að hlusta á “Ég sá mömmu kyssa jólasvein” á dansgólfinu.

En jæja, um næstu helgi er ég að fara í brúðkaup (treysti því að þar verði spiluð betri tónist) og svo eftir tvær vikur stefni ég á að djamma í Bangkok. Býst svosem ekki við góðri tónlist á því djammi, en ég mun vonandi sleppa við að hlusta á Súpermann.

Lada

.flickr-photo { border: solid 1px #000000; }
.flickr-yourcomment { }
.flickr-frame { text-align: left; padding: 3px; }
.flickr-caption { font-size: 0.8em; margin-top: 0px; }


Rússneskur lögreglubíll á Rauða Torginu í Moskvu.

Tók þessa mynd í Rússlandsferðinni minni, sem ég fór fyrir þrem árum.

Dylan kominn í hús

Í kvöld fór ég í Skífuna á Laugavegi og keypti mér nýjustu Dylan plötuna. Þar með er það ljóst að ég mun ekki hlusta á aðra tónlist næstu vikurnar.

Þetta hef ég verið að hlusta á að undanförnu

**Bruce Springsteen – We shall overcome (The Seeger Sessions)** – Algjörlega æðisleg plata með Springsteen, þar sem hann tekur lög eftir Pete Seeger. Maður tárast, langar til að dansa og allt þar á milli. Klárlega ein af bestu plötum ársins

**Johnny Cash – American V: A Hundred Highways** – síðasta platan í American flokknum með Cash. Virkilega góð.

**Lily Allen – Alright Still**: Besta popp-plata ársins hingað til. Vonandi að JT platan toppi hana. 🙂

**Thom Yorke – The Eraser**.

En núna fá þessar plötur hvíld og Dylan fær að njóta sviðsins. Einhvers staðar las ég að þetta væri fyrsta Dylan platan lengi þar sem maður tæki fyrst eftir tónlistinni og svo textunum. Ég er ekki frá því að tónlistin sé að grípa mig strax við fyrstu hlustun. Sennilega Workingman’s Blues #2 hvað sterkast svona til að byrja með.

Flickr kortasnilld

Ég er rétt búinn að hrósa Flickr fyrir það hversu mikil snilld sú síða er þegar þeir bæta inn enn einni snilldinni, [kortum](http://flickr.com/photos/einarorn/map/).

Inní Flickr kerfið er semsagt búið að bæta inn þeim eiginleika að maður getur sett inn nákvæmlega hvar myndirnar voru teknar og svo getur maður séð þær á korti, annaðhvort á teiknuðu korti eða með gervihnattamynd. Þetta virkar auðvitað best með Bandaríkjunum, þar sem gervihnattamyndir af Bandaríkjunum eru í miklu betri gæðum en til dæmis myndirnar af Íslandi.

Ég prófaði þetta áðan og setti inn á [kort allar myndirnar úr Bandaríkjaferðinni minni](http://flickr.com/photos/einarorn/map/). Gæðin á kortunum eru svo góð að ég get sett myndirnar niður á nákvæmlega þá byggingu, þar sem þær eru teknar. Þið getið [skoðað kortið hér](http://flickr.com/photos/einarorn/map/). Nota bene, veljið endilega “hybrid” eða “satellite” í hægra horninu, þá sjáiði gervinhattamynd, sem er verulega flott.