Luis Suarez er ekki rasisti

Íslenskir fjölmiðlar þýða bara greinar uppúr enskum fjölmiðlum og enskir fjölmiðlar hafa ekki beint fjallað málefnalega um málefni Luis Suarez, besta knattspyrnumanns Liverpool.

Suarez notaði orðið “negro” við Patrice Evra, þeldökkan leikmann Manchester United. Negro er fullkomlega eðlilegt orð í Suður-Ameríku og hefur enga tengingu við rasisma. Evra lýgur því að Suarez hafi sagt “fucking nigger” og svo að Suarez hafi sagt það 10 sinnum í sama leiknum. Hann dregur seinna í land með þær ásakanir en er samt talinn vera trúverðugt vitni og Suarez er dæmdur í 8 leikja bann og kallaður rasisti af enskum og íslenskum fjölmiðlum.

Ef einhver hefur áhuga á að lesa góðar greinar um þetta mál, þá mæli ég með eftirfarandi:

  • Media on Racism – Þetta er að mínu mati besta greinin um þetta mál og hreint ótrúlega óvandaða umfjöllun breskra fjölmiðla um málið. Ef þú lest eina grein um þetta mál, lestu þá þessa.
  • Luis Suarez – grein, sem við Kristján Atli skrifuðum á Kop.is um Suarez, þar sem ég fjalla meðal annars aðeins um notkun þessara orða í Suður-Ameríku.
  • All Spanish Speakers Are Racist – Frábær grein frá Paul Tomkins um málið.
  • KOP.is podcast – Við strákarnir á kop.is ræddum þetta mál svo í podcasti, sem var tekið upp í gær.

Áramótaávarp 2011

Þá eru bara nokkrir klukkutímar eftir af þessu frábæra ári. Ég sit hérna inní stofu á Akureyri hjá fjölskyldu Margrétar og er að fara að gera mig tilbúinn fyrir áramótapartí.

Þetta er búið að vera besta ár ævi minnar.

  • Við Margrét fórum í stórkostlegt ferðalag til Indlands, þar sem við vorum í tvo mánuði. Það hafði lengi verið draumur minn að ferðast með bakpokann um Indland. Við sáum Taj Mahal, Rajasthan, Delhi, Mumbai, líkbrennu í Varanasi, drukkum te í Darjeeling og köfuðum við Andaman eyjar. Algjörlega frábær ferð.
  • Við eyddum páskunum með vinum Margrétar í Danmörku, sem var mjög gaman.
  • Við eyddum júlí mánuði á Íslandi í brúðkaupsundirbúningi, sem var algjörlega frábær tími.
  • Vinir mínir steggjuðu mig á ógleymanlegan hátt.
  • Daginn fyrir brúðkaupsdaginn héldum við grillpartí fyrir gesti í Guðmundarlundi, þar sem allir hittust í afslöppuðu umhverfi.
  • Við Margrét Rós giftum okkur 23.júlí við Elliðavatn. Kristján Ágúst vinur okkar sá um athöfnina og Toggi Pop söng Þú komst við hjartað í mér, lagið sem var spilað ófá skipti sumarið 2008 þegar við byrjuðum saman. Athöfnin var ógleymanleg. Að fá svona góðan vin til að sjá um athöfnina var eitthvað sem er ekki hægt að toppa. Við höfðum reyndar gift okkur formlega nokkrum dögum áður hjá sýslumanni, en athöfnin við Elliðavatn er í okkar hugi það eina sem skiptir máli.
  • Brúðkaupsveislan var í Bláa Lóninu. Þar voru saman komin eina kvöldstund nánast allir okkar nánustu ættingjar og bestu vinir. Þetta var besta kvöld ævi okkar. Skemmtiatriðin voru stórkostleg, maturinn frábær og tónlistin líka. Við vorum á dansgólfinu nánast stanslaust frá 23 til klukkan 5 um morguninn. Nokkrum sinnum þetta kvöld hugsaði ég með mér að mér hefði aldrei á ævinni liðið svona vel – að ég ætti svona stórkostlega vini og væri að giftast svona ótrúlegri konu.
  • Snæja, frænka Margrétar og Jens, vinur minn, voru veislustjórar og þau voru frábær.
  • Við dönsuðum brúðkaupsdansinn við Ó Þú.
  • Brúðkaupið endaði á því að vinir og ættingjar sem voru eftir komu saman í hring á dansgólfinu og sungu Don’t look back in anger og Angel. Það er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma.
  • Við tókum rútu með gestunum til Reykjavíkur. Við fórum út á síðasta stoppi við Lækjartorg. Ég búinn að taka af mér slaufuna í svörtum smókíng og Margrét í djammútgáfunni af brúðkaupskjólnum. Ég með svartan ruslapoka fullan af gestabókum og Margrét með ferðtösku með dóti. Við löbbuðum í gegnum bæinn klukkan 6 á sunnudagsmorgni og fólk óskaði okkur til hamingju. Það var góð stund.
  • Daginn eftir héldum við brunch með fólki úr brúðkaupinu og fórum svo heim og tókum upp gjafirnar.
  • Á mánudeginum reyndi ég að smíða saman bréf til gestanna og lýsa því hversu þakklát við vorum fyrir þennan ótrúlega dag. Við höfðum jú gert okkar besta til að skipuleggja allt rétt. En svo getur maður aldrei skipulagt svo margt. Auðvitað eru það gestirnir sem á endanum skipta mestu. Gestirnir voru einfaldlega skemmtilegustu gestir sem nokkurn tímann hafa komið saman til veislu. Svo einfalt er það.
  • Við eyddum svo nokkrum dögum á Íslandi og nutum svo síðustu vikna sumarsins í Stokkhólmi. Komum svo heim til Íslands um haustið og fögnuðum því að foreldrar mínir hafa verið gift í 50 ár.
  • Serrano hefur gengið vel í Svíþóð og á Íslandi. Við opnuðum stað í Svíþjóð í apríl og svo opnuðum við Nam á Íslandi í desember og höfum fengið frábærar viðtektir. Mér líður vel í vinnunni og ég hef ofboðslega gaman af því að vinna vinnuna mína.
  • Fullt af vinum okkar hafa komið og heimsótt okkur til Stokkhólms. Mörgum af þeim höfum við kynnst allt öðruvísi og betur en við hefðum gert bara á Íslandi.
  • Síðustu vikum ársins erum við svo búin að eyða á Íslandi. Þrátt fyrir að okkur líki frábærlega að búa í Stokkhólmi þá mun maður aldrei hafa jafn mikil tengsl við Svíþjóð og maður hefur við Ísland. Hérna höfum við notið lífsins undanfarnar vikur. Haldið matarboð með vinum, farið í skírn, farið í jólaboð, horft á Liverpool leiki með vinum og svo framvegis. Og áramótunum eyðum við hérna á Akureyri.
  • Í september komumst við Margrét að því að við eigum von á okkar fyrsta barni. Á Þorláksmessu komumst við að því að það verður strákur, sem á að koma í heiminn í maí. Við getum ekki beðið.
    2011 hefur verið besta ár ævi minnar. Án nokkurs efa.

Númer 9

Á föstudaginn opnuðum við okkar þriðja Serrano stað í Stokkhólmi og þann níunda alls. Þessi staður er í verslunarmiðstöð í Liljeholmen, sem er í suð-vesturhluta Stokkhólmar – beint fyrir vestan eyjuna Södermalm, sem ég bý á. (sjá á korti hér).

Þessi staður hefur ekki verið lengi í undirbúningi. Við töluðum fyrst við eigendur mallsins í byrjun sumars – og eftir smá viðræður um hvaða staðsetningu við myndum fá og fyrir hvað þá skrifuðum við undir samning í ágúst. Nokkrum dögum síðar byrjuðum við svo framkvæmdir.

Eftir því sem stöðunum fjölgar þá minnkar stressið fyrir opnun hvers nýs staðar. Fyrir opnun staðarins á föstudaginn var ég nokkuð viss um að ég væri kominn með það alveg á hreint hvernig ætti að opna Serrano stað með tiltölulega lítilli fyrirhöfn. En í þessari opnun fór nánast allt úrskeiðis, sem mögulega gat farið úrskeiðis. Þetta er ekki tæmandi listi:

  • Við ætluðum að opna á fimmtudaginn, en á þriðjudag var ljóst að það myndi ekki takast. Næsta plan var þá að opna á föstudag kl 10 en á endanum opnuðum við ekki fyrr en um hálf eitt þegar að við höfðum misst af flestum hádegiskúnnunum.
  • Nánast öll tæki komu of seint. Frystirinn kom ekki fyrr en daginn sem við ætluðum að opna, quesadilla og tortilla grill eru ekki enn komin og svo framvegis.
  • Frystirinn virkaði ekki þar sem það gleymdist í verksmiðjunni að setja á hann kælivökva.
  • Netið virkaði ekki, þar sem við fengum vitlausar DNS tölur frá Telia. Netið virkaði ekki fyrr en um 3 leytið á föstudaginn (fram að því tókum við bara við peningum).
  • Smiðirnir náðu ekki að klára sín verkefni á réttum tíma – og voru í raun 5 dögum á eftir áætlun. Það hefur ekki gerst áður hjá okkur í Svíþjóð.
  • Skjáirnir, sem við áttum að fá fyrir matseðlana, eru staddir í Amsterdam. Okkur tókst á síðustu stundu að redda öðrum skjám á meðan við biðum eftir hinum.
  • Allt leirtau er enn fast í tolli í Suður-Svíþjóð. Við þurftum að redda okkur með leirtaui frá hinum Serrano stöðunum.
  • Fyrirtækið, sem útbjó baklýst Serrano logo fyrir okkur á staðinn klúðraði málunum og hafði gaffalinn öfugan. Þegar þeim tókst að útbúa nýjan gaffal í tíma þá týndist sendingin á leiðinni. Hún hefur ekki enn fundist.
  • Skeiðar í afgreiðsluborð töfðust um 6 vikur.

Og svo framvegis og framvegis. Veitingastjórinn hjá okkur í Liljeholmen er íslenskur strákur, sem þýðir að tveimur af þremur Serrano stöðum hérna í Svíþjóð er stjórnað af Íslendingum, sem hafa gert virkilega vel. Það voru þó allir orðnir verulega þreyttir og stressaðir þegar okkur loksins tókst að opna þrátt fyrir allt þetta klúður.

Og fyrstu dagarnir lofa svo sannarlega góðu. Svo góðu að nánast allur matur kláraðist og það þurfti að ræsa út fólk úr mið-eldhúsinu í gær og ég stóð í allan gærdag og skar tómata, eldaði kjúkling og fleira sem tilheyrir. Margrét vann á kassa allan gærdaginn og daginn í dag og kærasta Núma, veitingastjóra, var í uppvaskinu allan daginn.

Þannig að þetta sýnir að það er ekki auðvelt að opna nýjan veitingastað og sama hversu vel manni finnst maður hafa undirbúið opnuna þá eru svo ótrúlega margir hlutir, sem geta klikkað. En staðurinn lítur ótrúlega vel út og salan lofar góðu, þannig að ég er bjartsýnn fyrir framhaldið.

NAM – Nútíma asísk matargerð

Á næstu vikum munum við opna veitingastaðinn NAM.

NAM stendur fyrir Nútíma asísk matargerð, eða gæti verið stytting á “Víetnam” – (einsog “þetta er nú ekkert miðað þegar ég var í ‘Nam.”).

Að einhverju leyti mun NAM líkjast Serrano því maturinn verður afgreiddur úr afgreiðsluborði og fólk mun hafa umtalsvert val þegar það borðar hjá okkur.

Maturinn verður eitthvað alveg nýtt og öðruvísi en fólk á að venjast frá asískum mat á Íslandi. Við horfum til stórs hluta Asíu og höldum okkur ekki við eitt landsvæði þegar að kemur að áhrifum á matinn. Bæði eru mikil áhrif frá Kína og einnig löndum einsog Víetnam. Úr þessu verður til eitthvað alveg nýtt.

Alex Sehlstedt, sem er yfirkokkur Serrano í Svíþjóð, hefur séð um þróun matarins á NAM en hann hefur mikla reynslu af asískri matargerð. Við stefnum að því að opna staðinn um miðjan desember. Ég mun uppfæra Facebook síðuna með meiri upplýsingum um matinn og staðinn þegar að nær dregur opnun. En ég hvet alla sem hafa áhuga um að fylgjast með okkur á Facebook síðunni okkar.

Við munum bjóða uppá hrísgrjóna- og núðlurétti, núðlusúpu, salöt, Banh Mi samlokur og dumplings. Þetta verður spennandi.

Steve Jobs ævisagan

Ég kláraði að lesa Steve Jobs ævisöguna í síðustu viku. Ég er búinn að vera að melta bókina síðan þá og líka lesið slatta af efni og hlustað á þætti um bókina.

Niðurstaða mín var svipuð og nokkurra Apple nörda, sem ég hef hlustað á – það er að bókin olli vonbrigðum. Walter Isacson, sem skrifaði bókina, var augljóslega lítið meðvitaður um tækni- og tölvumál og það er greinilegt af bókinni að hann hafði ekki áhuga á mörgu því sem Jobs var að gera. Hlutir, sem ég hefði viljað komast að, eru hundsaðir í bókinni og margt skilið eftir óútskýrt. Það er að mörgu leyti sorglegt því enginn mun nokkurn tímann hafa sama aðgang að Steve Jobs og Isacson hafði.

Það er í rauninni furðulegt hversu lítinn áhuga Isacson virðist hafa haft á því að rannsaka Steve Jobs og skapgerðarbresti hans. Jobs er augljóslega snillingur og einn merkasti framkvæmdastjóri og frumkvöðull allra tíma. En hann var líka afskaplega gallaður persónuleiki, sem var vondur við starfsfólk sitt og fjölskyldu. Maður sem sat heima á föstudagskvöldum og sendi niðrandi pósta á tölvublaðamenn bara af því að þeir væru fúlir yfir því að Apple gerðu eitthvað vitlaust. Isacson kafar aldrei dýpra og reynir að skilja Jobs eða hvað veldur þessu. Af hverju er Jobs miður sín kvöldið sem að iPad er kynntur bara af því að nokkrir aðilar skrifa á netinu að það vanti USB tengi á iPadinn?

Ég var mest spenntur yfir því að lesa um tímabilið frá því að Jobs tók aftur við Apple, því sá tími hefur verið mikið leyndarmál og lítið lekið út frá Apple. En umfjöllun Isacson um þann tíma er afskaplega takmörkuð. Farið er í gegnum söguna vöru eftir vöru, en litlu bætt við það sem við vissum ekki nú þegar.

Það eru auðvitað hlutir í þessari sögu sem eru nýjir og ég mæli með bókina fyrir alla þá sem hafa áhuga á Apple, en ég get ekki forðast þá hugsun að Steve Jobs hafi tekið ranga ákvörðun þegar hann réð Isacson í þetta verkefni og að Isacson hafi misst af einstöku tækifæri til að kafa dýpra í feril og persónu þessa merka manns.

Annars mæli ég með podcast hjá John Siracusa þar sem hann og Dan Benjamin ræða bókina og fara yfir margt af því sem mér finnst vera slæmt við bókina.

Svik, harmur og dauði er SNILLD

Ég byrjaði dálítið seint að fíla HAM og ég var ekki svo kúl að hafa mætt á lokatónleikana þeirra á Tunglinu þegar ég var 17 ára. Eftir að þeir hættu að spila þá byrjaði ég þó að hlusta á þeirra eldri plötur og varð hrifinn. Ég var líka hrifinn af sóló projektum Sigurjóns Kjartanssonar og átti báðar Olympíu plöturnar, sem ég hlustaði á þegar ég var 17-18 ára. Það vakti alltaf mikla lukku þegar ég setti þær plötur á í partýjum.

Þegar ég heyrði fyrst um það að þeir ætluðu að gefa út nýja plötu þá hafði ég eflaust einsog flestr miklar efasemdir um að það yrði gott stöff. Það er bara ekki svo algengt að menn, sem voru í frábærri rokkhljómsveit þegar þeir voru undir þrítugt geti komið aftur 15 árum seinna og ennþá gert góða tónlist.

Eflaust hafa flestir lesið dóma um nýju plötuna þeirra, en það er alveg þess virði að endurtaka það hér: Þessi plata er fokking snilld! Ég hef ekki hlustað eins mikið á neina aðra plötu á þessu ári og lögin eru nánast öll frábær. Lögin sem hafa verið í spilun á Íslandi (Sviksemi og Ingimar) eru algjörlega frábær, en ég held ekki minna uppá lög einsog Veislu Hertogans Svartan Hrafn og Heimamenn. Þetta er einfaldlega besta rokkplata, sem ég hef hlustað á lengi.

Hægt er að kaupa plötuna á Gogoyoko fyrir fólk í útlöndum einsog mig, eða þá bara labba útí næstu búð.

Hverjum eigum við að kenna um næsta tap? | Liverpool Bloggið

Hverjum eigum við að kenna um næsta tap? | Liverpool Bloggið. – Ég skrifaði pistil á Liverpool bloggið um leiðinlega áráttu fólks að finna einn sökudólg fyrir öll slæm úrslit Liverpool (og eflaust allra annarra liða).  Ég fjalla líka aðeins um Steve Bartman, Cubs aðdáenda.

Myndir frá Indlandi

Ég hef síðustu vikur sett inn slatta af Indlandsmyndunum á Flickr.  Við tókum gríðarlega mikið af myndum á Indlandi og það hefur tekið sinn tíma að laga til myndirnar, skíra og svo framvegis.

En fyrir áhugasama, þá eru hérna fyrstu myndirnar úr ferðinni.

1. hluti: Maharastra: Þetta eru myndir frá Mumbai og svo hellunum í Ajanti og Ellora.

Margrét og ég hjá Gateway to India

2. hluti: Rajasthan: Þetta var að mörgu leyti hápunktur ferðarinnar.  Þarna eru myndir frá Jaipur, Jodhpur, Udaipur og Thar eyðimörkinni.

Lake Palace

3. hluti: Delhi og Amritsar: Myndir frá höfuðborginni og Gullna Hofinu í Amritsar ásamt pakistönsku landamærunum.

Hjá hofinu

Ég set svo inn restina af myndunum á næstu dögum og vikum.

Íbúðaskipti – viltu eyða jólunum í Stokkhólmi?

Við Margrét erum að leita af íbúðaskiptum um jólin.

Íbúðin okkar (90 ferm. á besta stað í Södermalm í Stokkhólmi) stendur til boða frá 20. des til 6. jan. Á móti vantar okkur huggulega íbúð miðsvæðis í Reykjavík. Bíll í kaupbæti væri ekki verra. Í íbúðinni okkar býr sætasti köttur í heimi og fylgir hann í skiptunum.

Endilega sendið póst á Margréti ef þið hafið áhuga.

Steve Jobs dáinn

Það er skrýtið að hugsa til þess að það hafi áhrif á mann þegar að framkvæmdastjóri fyrirtækis í Kaliforníu deyr, en Steve Jobs var jú enginn venjulegur framvkæmdastjóri.

Ég hef notað Apple vörur í nærri því 20 ár. Allt frá því að ég eignaðist Macintosh Classic tölvu þegar ég var 13 eða 14 ára. Síðan þá (með smá hléi í framhaldsskóla) þá hef ég notað Apple tölvur á hverjum degi. Frá því að fyrsti iPod-inn kom út hef ég ekki notað annað tæki til að hlusta á tónlist á ferðinni. Frá því að fyrsti iPhone-inn kom á markað hef ég ekki geta notað aðra síma og frá því að iPad kom út hefur mér ekki dottið í hug að kaupa spjald-tölvu frá öðru fyrirtæki. Ég var Apple nörd þegar það var ekki tísku að vera Apple nörd og ég þurfti að berjast við skóla og vinnustaði um að fá að nota Apple vörurnar mínar í stað PC tölva.

Það gera margir grín af okkur Apple nördum fyrir aðdáun okkar á Steve Jobs. Hann birtist okkur einu sinni eða tvisvar á ári, sýnir okkur á ótrúlega áhrifaríkan hátt nýjustu vöruna sína og við getum svo ekki beðið eftir því að fá að afhenda Apple peningana okkar til að kaupa nýjasta dótið.

En Steve Jobs var einfaldlega einstakur. Hann var ótrúlega góður sölumaður og hann hafði einstaka sýn á það hvernig tölvur og önnur tæki ættu að virka og líta út. Hann vildi að tölvurnar væru einfaldar og fallegar. Áður en iMac kom út voru allar tölvur beislitaðar og ljótir kassar. Áður en iPhone kom þá hataði ég alla síma sem ég hafði átt. Steve Jobs var ekki eini starfsmaður Apple, en það var augljóst að allt fyrirtækið vann eftir hans höfði. Það er alveg klárt mál að tölvur og símar væru umtalsvert ljótari og flóknari tæki í dag ef Steve Jobs hefði ekki stofnað Apple.

Hans verður saknað.